Framfarir en stíga þarf stærri skref

Mikil breyting er í sjónmáli verði rafrænar þinglýsingar innleiddar með lagafrumvarpi dómsmálaráðherra, sem nú er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Margir fagna þessu í umsögnum til nefndarinnar en telja líka þörf á að ganga mun lengra.

Breytingin á að auka hagræði og hafa í för með sér mikinn tímasparnað hjá lántakendum og öðrum sem hafa þurft að fara með skjöl í þinglýsingu á skrifstofur sýslumanna og margumræddur biðtími styttist væntanlega verulega með hraðvirkari afgreiðslu. En skjala- og pappírsvafstrið heyrir þó ekki sögunni til. Í umsögn Þjóðskrár er t.a.m. bent á að þinglýsing skjala á pappírsformi muni haldast óbreytt enda ekki lagðar til breytingar á öðrum ákvæðum laganna þar sem fjallað er um þinglýsingu skjala á pappírsformi.

Íbúðalánasjóður bendir á að fjármálafyrirtæki komi áfram til með að þurfa að gefa veðskjöl út á pappír og með lögfestingu frumvarpsins bætist við að þau þurfa einnig að fylla út rafræna færslu til þinglýsinga. Hvatt er til að fleiri skref verði tekin til þess að útgáfa veðskjala geti einnig orðið rafræn.

Jóna Björk Guðnadóttir, yfirlögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, tekur í sama streng í umsögn og segir að þrátt fyrir að frumvarpið sé langþráð sé æskilegt að ganga lengra svo útgáfa allra veðskjala og stjórnsýsla tengd þeim geti orðið rafræn. Í þessu frumvarpi sé skrefið til rafrænna viðskipta og rafrænnar stjórnsýslu sem tengist þeim aðeins stigið til hálfs.

„Aðeins er gert ráð fyrir rafrænni þinglýsingu veðskjala en ekki er gert ráð fyrir að veðskjölin sjálf geti verið rafræn eða undirrituð með rafrænum hætti,“ segir í umsögn hennar. Enn fremur þarf að mati SFF enn frekari breytingar á lögum til þess að ná því markmiði að útgáfa veðskjala geti orðið rafræn. „Eins og frumvarpið lítur út munu sjónarmið um breytt form skjala, sparnað á tíma og pappír og þar með betri þjónustu ekki ná fram að ganga gagnvart viðskiptavinum. Fjármálafyrirtæki munu áfram þurfa að gefa út veðskjöl á pappírsformi og síðan bæta við rafrænni færslu til þinglýsingar.“ 

Færa efni skjala í forrit

Við eldhúsdagsumræður á Alþingi í haust boðaði Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra sókn í rafvæðingu stjórnsýslunnar. Fyrsta skrefið er væntanleg löggjöf um rafrænar þinglýsingar sem á að taka gildi 1. mars nk. með aukinni sjálfvirkni við þinglýsingar.

Sýslumenn hafa sent umsagnir við frumvarpið á undanförnum dögum og segir þar að um gríðarlegt framfaramál sé að ræða en vanda verði vel til verka við innleiðinguna. Minnt er á að þinglýsingar hafi verið rafrænar í mörg ár og fara þannig fram að skjöl sem afhent eru hjá sýslumanni eru færð inn í rafrænt þinglýsingarkerfi. „Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og hafa verið kynntar sýslumanni, munu felast í því að þinglýsingarbeiðandi hefur sjálfur aðgang að þinglýsingarforriti, þar sem hann færir sjálfur inn efni skjalsins og forritið mun síðan þinglýsa skjalinu sjálfvirkt ef öll skilyrði eru fyrir hendi. Skjalið sjálft kemur því ekki til þinglýsingarstjóra og verður eingöngu í vörslu þinglýsingarbeiðanda, ef skjalið verður á annað borð búið til,“ segir í umsögn sýslumannsins á Norðurlandi vestra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert