Neitar þjófnaði í skútumálinu

Frá þingfestingu málsins í morgun. Maðurinn játaði að hafa tekið …
Frá þingfestingu málsins í morgun. Maðurinn játaði að hafa tekið Inook í heimildarleysi en neitaði ákæru eins og hún var sett fram. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Karlmaður sem ákærður var fyrir að stela skútunni INOOK úr höfninni á Ísafirði í síðasta mánuði neitaði sök eins og hún var sett fram í ákærunni. Þingfesting í málinu fór fram í Héraðsdómi Vestfjarða á Ísafirði í morgun. Hann játaði hins vegar að hafa tekið bátinn í heimildarleysi.

Maðurinn er ákærður fyrir þjófnað, en til vara fyrir nytjastuld, með því að hafa stolið seglskútunni með því að hafa spennt upp hurð í stýrisrými hennar með skrúfjárni. Er hann sagður hafa ætlað að sigla skútunni í auðgunarskyni og í heimildarleysi til Færeyja eða Skotlands. Maðurinn var hins vegar stöðvaður við Breiðafjörð þar sem áhöfn gæsluþyrlunnar TF-LIF fann bátinn. Hafði þá lögreglan á Ísafirði óskað aðstoðar gæslunnar við leitina. Var bátnum í kjölfarið beint til hafnar á Rifi á Snæfellsnesi þar sem maðurinn var handtekinn.

Maðurinn, sem er fæddur árið 1969 neitaði að hafa stolið bátnum í hagnaðarskyni. Þá neitaði hann einnig að áfangastaðurinn væri Skotland eða Færeyjar og þar með neitaði hann ákærunni eins og hún var sett fram af saksóknara. Hins vegar játaði hann að hafa tekið bátinn í heimildarleysi.

Aðalmeðferð í málinu fer fram við héraðsdóminn 6. desember, en Kristján Óskar Ásvaldsson, verjandi mannsins, sagði við mbl.is að ekki væri gert ráð fyrir greinargerðarskilum í málinu. Flýtir það talsvert meðferð málsins.

Lögreglan á Ísafirði óskaði við þingfestingu einnig eftir því að farbann yfir manninum yrði framlengt til 10. desember og mun dómurinn úrskurða um það síðar í dag.

Hvarf frönsku skútunnar Inook uppgötvaðist nóttina eftir að hún var …
Hvarf frönsku skútunnar Inook uppgötvaðist nóttina eftir að hún var tekin úr höfninni á Ísafirði og fannst hún út af Breiðafirði. Ljósmynd/Torfi Einarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert