20% fjölgun fólks á biðlistum

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Eggert

Biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hafa lengst og í september biðu að meðaltali 411 einstaklingar eftir slíkum rýmum. Í september í fyrra biðu að meðaltali 342 og nemur fjölgunin á landsvísu 20%.

Þetta kemur fram í tölum frá embætti landlæknis um bið eftir varanlegri búsetu í hjúkrunarrými frá fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs.  

Biðtími eftir hjúkrunarrýmum hefur einnig lengst umtalsvert á undanförnum árum. Á þriðja fjórðungi ársins 2018 var miðgildi biðtíma 83 dagar en á þriðja fjórðungi ársins 2017 var miðgildið 70 dagar.

Í starfsemiupplýsingum Landspítala kemur fram að 1. október síðastliðinn hafi 16% af rúmum á Landspítala (án öldrunardeildar á Vífilsstöðum og líknardeildar) verið notuð af öldruðum með gilt færni- og heilsumat sem biðu úrræðis utan spítalans.

„Embætti landlæknis lýsir eins og áður yfir þungum áhyggjum af stöðunni og þeim áhrifum sem löng bið eftir hjúkrunarrýmum getur haft, bæði á lífsgæði þeirra sem bíða svo og heilbrigðiskerfið. Brýnt er að allra leiða verði leitað til að bæta úr þessari stöðu,“ segir í tilkynningu embættis landlæknis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert