Milljónir séð auglýsingu fyrir au-pair

Fjölskyldan hefur tvisvar áður verið með au-pair á Eskifirði.
Fjölskyldan hefur tvisvar áður verið með au-pair á Eskifirði. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum við það að gefast upp og ég ætlaði að minnka við mig vinnu, en svo ákváðum við að taka sénsinn og auglýsa á Facebook af því við eigum vini og fjölskyldu í Danmörku. Við hugsuðum ekki mikið út í þetta og hentum þessu upp, ég vonaði að við fengjum kannski 100 deilingar,“ segir María Hjálmarsdóttir.

Henni og manni hennar, Jesper Sand Poulsen, hafa borist á sjöunda tug umsókna eftir að þau auglýstu eftir au-pair á Facebook og hefur auglýsingunni verið deilt yfir 7.500 sinnum.

María og Jesper eru búsett á Eskifirði og eiga sex ára tvíbura. Þau hafa tvisvar áður verið með au-pair og í bæði skiptin fundið hana í gegnum alþjóðlegu samtökin Aupairworld en allt kom fyrir ekki þegar þau auglýstu nú síðast.

Fjölskyldan situr nú uppi með hátt í sjötíu umsóknir.
Fjölskyldan situr nú uppi með hátt í sjötíu umsóknir. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta gerðist rosalega hratt og þegar deilingarnar voru orðnar um 300 byrjuðu umsóknirnar að koma inn. Þegar þetta var komið yfir 1.000 og svo yfir 3.000 hugsaði ég alltaf að þetta gæti ekki farið lengra. Svo þegar þetta var komið upp í fimm, sex og sjö þúsund deilingar fékk ég pínu í magann af því börnin mín eru þarna fremst, og ef allir þessir aðilar eiga 200 til 300 vini þá erum við að tala um milljónir sem hafa séð þetta,“ segir María.

Fjölskyldan situr nú uppi með hátt í sjötíu umsóknir og nokkrar mjög góðar, að sögn Maríu.

„Við fengum ferilskrár og meðmælabréf og sumar buðust til að koma á morgun, aðrar til að vinna frítt. Svo var ein fimmtug kona sem vildi koma og búa hjá okkur þó hún ætti ömmubörn, og maður á fertugsaldri sem hafði aldrei passað börn en var til í að flytja því honum þótti myndirnar svo flottar.“

María og Jesper eru búsett á Eskifirði og eiga sex …
María og Jesper eru búsett á Eskifirði og eiga sex ára gamla tvíbura.

María segir það enga smá vinnu að fara í gegnum allar umsóknirnar, en hún og Jesper hafa notað kvöldin til þess að prenta umsóknirnar út og fara yfir þær. „Við erum komin niður í tíu og búin að óska eftir Skype-viðtali við þær.“

Þau ætla að loka fyrir umsóknir á föstudaginn, en María vonar að þau fái ekki aðra öldu umsókna í kjölfar útvarpsviðtals sem þau fóru í á danskri útvarpsstöð og verður spilað á morgun. „Ég bað hana að draga aðeins úr þessum vinkli að okkur vantaði au-pair,“ útskýrir hún, en útvarpsstöðinni lék forvitni á að vita hvers vegna Jesper hafi flutt til Íslands og hvers vegna fjölskyldu í svona litlum bæ úti á landi vantaði au-pair.

„Við erum mjög upptekin bæði tvö, í krefjandi starfi, og svo viljum við að börnin haldi dönskunni við, að þau geti talað við ömmu sína og afa í Danmörku á dönsku og svona. Svo gefur þetta okkur og börnunum rosalega mikið. Þetta er holl reynsla fyrir alla og víkkar sjóndeildarhringinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert