Sóknir landsins skila 453 milljóna afgangi

Afgangur af rekstri Hallgrímskirkju nam á síðasta ári 66 milljónum.
Afgangur af rekstri Hallgrímskirkju nam á síðasta ári 66 milljónum. mbl.is/Árni Sæberg

Heildarrekstrarhagnaður kirkjusókna landsins nam á síðasta ári 453 milljónum króna, en tekjur sóknanna námu 3,06 milljörðum meðan gjöld voru 2,6 milljarðar. Hallgrímssókn var með langhæstar tekjur, eða 377,2 milljónir, en „aðrar tekjur“ námu 315,8 milljónum. Hefur kirkjan undanfarin ár fengið talsverðar tekjur vegna sölu aðgangsmiða í turn kirkjunnar og falla þær tekjur undir þennan lið. Þrjár aðrar sóknir voru með yfir 100 milljónir í heildartekjur.

Í yfirliti yfir ársreikninga sókna fyrir síðasta ár sem ríkisendurskoðun hefur birt kemur fram að sóknir í Reykjavíkurprófastdæmi vestra hafi samtals skilað 105,7 milljóna króna hagnaði. Munar þar mestu um Hallgrímssókn sem skilaði 66,5 milljóna hagnaði. Háteigssókn skilaði hins vegar 4 milljóna rekstrarhalla og Dómkirkjan 1,4 milljóna halla.

Í Reykjavíkurprófastdæmi eystra var heildarhagnaður sóknanna 67 milljónir. Þar eru tvær fjölmennustu sóknir landsins, Lindasókn og Grafarvogssókn. Skilaði Lindasókn 23,2 milljóna afgangi og Grafarvogssókn 10 milljóna afgangi. Þá skilaði Grafarholtssókn einnig umtalsverðum afgangi, eða 13,5 milljónum. Eina sóknin sem skilaði tapi í prófastdæminu var Fella- og Hólabrekkusókn, en taps ársins nam 4 milljónum.

Ástjarnarsókn sker sig nokkuð úr bæði í Kjalarnesprófastdæmi og á landsvísu, en afgangur ársins hjá sókninni var 106,7 milljónir. Munar þar mestu um 96,4 milljóna króna lið í „önnur framlög og styrkir“. Heildarhagnaður sókna í prófastdæminu var 178,1 milljón, en Víðistaðasókn var með tap upp á 13,3 milljónir.

Utan höfuðborgarsvæðisins skiluðu öll prófastdæmi afgangi á síðasta ári. Í Vesturlandsprófastdæmi skilaði Setbergssókn 21 milljónar króna afgangi. Er sóknin með skráðar 25,5 milljónir undir liðnum „önnur framlög og styrkir“ á síðasta ári. Þá var afgangur Hólssóknar 11,6 milljónir.

Stóranúpssókn í Suðurprófastdæmi var hins vegar með 13,9 milljóna króna halla á síðasta ári, en það helgast helst af 21,7 milljóna króna kostnaði við viðhald eigna.

Eignir allra sókna landsins eru metnar á 35,7 milljarða, en þar af eru fastafjármunir 33,8 milljarðar og veltufjármunir 1,95 milljarðar. Er eigið fé sóknanna 33 milljarðar, langtímaskuldir 2,15 milljarðar og skammtímaskuldir 550 milljónir.

mbl.is