„Tindurinn er tappinn í flöskunni“

Opna úr fyrstu Lesbókargreininni um ferð fimmmenninganna.
Opna úr fyrstu Lesbókargreininni um ferð fimmmenninganna.

„Svöl morgungolan lék um okkur þar sem við sátum aftan á pallbíl og brunuðum eftir malbikuðum vegi Rio Santa-dalsins. Við vorum á leið upp í fjallaþorpið Collón í 3.350 metra hæð. Þaðan var ætlunin að leggja upp í fyrsta fjallaleiðangurinn.“  Svo skrifar Kristinn Rúnarsson í Lesbók Morgunblaðsins árið 1985 um ferð félaga í Íslenska alpaklúbbinum á Alpamayo.

Greinaflokkurinn fékk heitið Fimm í Perú og fjallað um ferð þeirra Kristins, Þorsteins Guðjónssonar, Önnu Láru Friðriksdóttur, Jóns Geirssonar og Torfa Hjaltasonar á hæstu fjallatinda Perú.

Mbl.is greindi frá því á sunnu­dag að lík tveggja ís­lenskra fjall­göngugarpa, þeirra Krist­ins og Þor­steins, hefðu ný­verið fund­ist í Nepal, 30 árum eft­ir að þeir fór­ust á niður­leið af fjall­inu Pu­mori í októ­ber árið 1988, 27 ára að aldri. Var það banda­rísk­ur fjall­göngumaður sem rakst á lík þeirra og til­kynnti fund­inn.

Þremur árum fyrir þá afdrifaríku ferð klifu þeir á nokkra tinda í Perú og ferðasagan, sem  ferðalangarnir skiptust á að skrifa, var birt í Lesbókinni. Hér verður gripið niður á nokkrum stöðum í frásögninni:

Fyrsti tindur sem hópurinn fór á var Nevado Urus, 5.495 metrar á hæð sem þykir hentugur til aðlögunar. „Enda auðveldur uppgöngu og hækkunin mátuleg fyrir upp- og niðurferð samdægurs,“ skrifar Kristinn í annarri greininni um ferð þeirra.

Kristinn Rúnarsson skrifar að það hafi verið mikill léttir er …
Kristinn Rúnarsson skrifar að það hafi verið mikill léttir er þau náðu fyrsta tindinum.

Súrefnisskortur og höfuðverkur

„Næturnar voru kaldar. Hitinn fór oft niður fyrir frostmark. En þegar sólin náði að vega sig upp yfir fjallatindana í austri var fljótt að hlýna. Næturhrímið þiðnaði af gróðrinum á svipstundu og lofthitinn hækkaði um 20 gráður á nokkrum mínútum. Fyrir tjaldbúa virkaði þetta sem einskonar náttúruvekjaraklukka.“  Í botni Ishinkadalsins hringdi sú vekjaraklukka klukkan 7.13 þennan morguninn.

„Þegar taka átti til mat þennan morgun varð okkur fyrst fyrir alvöru ljóst að gerð höfðu verið hrapalleg mistök. Matarbirgðir voru af mjög skornum skammti. Morgunmatur fannst ekki. Örbirgðin var þvílík að jafnvel Þorsteinn innkaupastjórinn í þetta fyrsta og eina skipti varð að viðurkenna skortinn — Eða hvað?“ skrifar Kristinn og rifjar upp orðaskiptin sem fylgdu.

  • Haframjölið! Það er ekkert mál að búa til hafragraut.“
  • Það vantar mjólk.“
  • Mjólk! Ekkert mál að nota vatn.“
  • Hefurðu smakkað vatnshafragraut!“
  • Já, já. Hættiði þessu væli. Ég skal búa til fínan hafragraut handa ykkur. Svona þykkan og góðan eins og mamma gerði í gamla daga.“

„Skyggni lélegt“

Að loknum morgumat hélt hópurinn af stað á fjallið. „Leiðin lá upp stórgrýtta bratta skriðu upp að jökuljaðri í 5.000 metra hæð. Þaðan var að því er virtist auðvelt að ganga upp jökulinn og eftir snotrum snjóhrygg sem myndaði topp fjallsins.

Ferðin gekk tiltölulega átakalaust upp skriðuna. Við jökuljaðar tók þoka á móti okkur. Allt hvítt. Þunna loftið gerði einnig vart við sig. Ég fann hvernig slagæðarnar í hálsinum hömuðust við að pumpa súrefni til heilans. Þegar ég hægði á mér, eða stoppaði til að kasta mæðinni hægðu slagæðarnar einnig á sér. Við það varð súrefnisskortur í efra sem lýsti sér í auknum höfuðverk. Þægilegast var að reyna að ná hægum og jöfnum gönguhraða og paufast þannig áfram í þokunni helst hugsunarlaust. Svona „skemmtiferð“ þolir nefnilega ekki mikla rökhugsun um tilgang sinn án þess að fá bráðan endi,“ rifjar Kristinn upp.

„Toppinum var náð. Það var ánægja og léttir. Mikill léttir. Útsýnið var mjög takmarkað eða eins og íslenska veðurstofan orðar það „skyggni lélegt“. Metnaði var fullnægt. Öll höfðum við að Þorsteini undanskildum sett persónulegt hæðarmet. Það og sú vitneskja að allir spjöruðu sig sæmilega var góðs viti fyrir komandi fjallaferðir. Tilganginum var náð.“

Myndin t.v. Kristinn virðir fyrir sér fyrirheitna tindin: Nevada Toqllaraju, …
Myndin t.v. Kristinn virðir fyrir sér fyrirheitna tindin: Nevada Toqllaraju, en þangað upp náðu fimmmenningarnir ekki. Á efri myndinni t.h. er birgðum þeirra komið fyrir á asna og sú neðsta sýnir fyrstu tjaldbúðir þeirra í ferðinni.

Alpamayo var ofarlega í huga

Jón Geirsson segir í sínum skrifum að ljóst hafi verið strax frá upphafi ferðahugleiðinga að Alpamayo var fjall sem var ofarlega í hugum þeirra flestra og eftir að hafa aðlagast hæðinni var farið á bæði Kitaraju og Alpamayo.

Ferð hópsins gekk ekki átakalaust fyrir sig og hópurinn missti í snjóflóði búnað sem átti að koma fyrir í búðum fyrir gönguleiðina upp á tindana tvo. Hér er gripið niður í frásögn Jóns af atvikinu:

„Við vorum komin upp fyrir miðjan jökullinn  þegar ég sá það. Það var eins og allur máttur væri úr mér dreginn, ég settist niður. Snjóflóð hafði fallið yfir staðinn þar sem við höfðum skilið búnaðinn eftir. „Þá er þessu öllu lokið,“ hugsaði ég. Ég var gráti næst, allt þetta erfiði! Við hertum okkur upp og gengum að flóðinu. Við lifðum í voninni um að búnaðurinn hefði sloppið en það sást ekkert í hann. Flóðið hafði verið risavaxið sambland af íshruni og snjóskriðu. „Við verðum að leita með skíðastöfunum,“ hrópaði einhver.

Eftir töluverða leit, sem hefði getað reynst svipuð því að leita að nál í heystakki fann Torfi búnaðinn, sem reyndist að mestu leyti heill.

Bætt úr vökvatapinu milli klifurleiðangra. Á myndinni eru Torfi, Jón, …
Bætt úr vökvatapinu milli klifurleiðangra. Á myndinni eru Torfi, Jón, Þorsteinn og Kristinn.

Steinn í loftköstum

Þeir Jón, Þorsteinn og Kristinn héldu svo næsta dag á Kitaraju. 

„Hlíðin var að mestu þakin snjó og ís, brattinn um 45-50 gráður. Klifrið var ekki mjög erfitt og mér var farið að finnast það hálftilbreytingarlítið um það er lauk. En kringumstæðurnar bættu það upp. Klifur í brattri fjallshlíð var eitthvað sem okkur hafði alla dreymt um. Þetta gekk mjög vel og og við vorum komnir í efri hluta leiðarinnar. Þá heyri ég strákana hrópa eitthvað. Ég leit niður og sá þá benda upp. „Hvað er nú þetta og hvaðan gat þetta nú komið?“ Stór steinn kom í loftköstum niður hlíðina og stefndi á okkur. Ósjálfrátt greip ég um höfuðið og reyndi að gera mig eins lítinn og ég gat. Steinninn skall í snjóinn í tveggja metra fjarlægð frá mér og breytti þar um stefnu og stefndi nú á strákana 20 metrum neðar. Strákarnir sluppu, ég andaði léttar og fór að velta fyrir mér hvaðan steinninn hefði komið.

Fyrir ofan okkur var aðeins snjór, hvergi nokkurs staðar sást í dökkan díl. Það var engu líkara en einhver í efra hefði stjakað honum af stað.

Það var ískaldur vindurinn sem tók á móti okkur á tindhryggnum. Norðurhlíð Kitajaru var að baki. Mikið var þægilegt að geta staðið jafnfætis og án þess að styðja sig við ísöxina. Við bröltum eftir hryggnum og náðum tindinum fljótlega.

Það var stórkostleg tilfinning að standa á honum. Þetta var fyrsti tindur hærri en 6.000 metrar sem að við höfum klifið. Útsýnið var einstakt, himinninn skafheiður og umhverfið hrikalegt.“

Stundin er fimmmenningarnir stóðu á tindi Alpamayo tveimur dögum síðar var ekki síður stórkostleg. „Stemmningin í hópnum náði hámarki,“ skrifar Jón. „Okkur hafði tekist það.“

Þorsteinn Guðjónsson skrifar að þegar búið sé að stunda fjallgöngur …
Þorsteinn Guðjónsson skrifar að þegar búið sé að stunda fjallgöngur í mörg ár, þá hætti fjall að vera „bara fjall“. „Það skiptir máli hvernig er farið á fjallið og hvaða leið. Tindurinn sjálfur lækkar í sessi og sú reynsla sem fæst af fjallinu verður mikilvægust.“

„Þetta viltu Þorsteinn“

Þorsteinn fjallar í síðustu greininni um ferð þeirra upp á tind Huscaran, sem er hæsta fjall Perú og var á þeim tíma hæsti tindur sem þessir fimm félagar í Íslenska alpaklúbbinum höfðu komist á. Hann segir gamalkunna kvíðatilfinningu hafa gert vart við sig fyrir klifrið.

„Þetta viltu Þorsteinn,“ skrifar hann og kveðst hafa vaknað á tveggja tíma fresti um nóttina, en leiðin sem þau ætluðu upp var ekki sú hefðbundna heldur öllu metnaðarfyllri. „Því þegar maður er búinn að stunda fjallgöngur í mörg ár, þá hættir fjall að vera „bara fjall“. Það skiptir máli hvernig er farið á fjallið og hvaða leið. Tindurinn sjálfur lækkar í sessi og sú reynsla sem fæst af fjallinu verður mikilvægust. Atriði eins og t.d. hætta — erfiðleikar, rómantík — tilfinningar, félagsskapur — einmanaleiki, hræðsla og gleði skapa þessa reynslu. Tindurinn er tappinn í flöskunni, oft nauðsynlegur svo innihaldið renni ekki út.“

Næstu nótt vöknuðu þau um tvöleytið og hófu undirbúninginn. „Það var alltaf eins þegar við vorum að leggja í‘ann: Öll þögul, svolítið stressuð hvert út í annað. Aðeins stuttar athugasemdir sem skiptu engu máli. Síðan græjuðum við okkur. Farið í belti, brodda og línur, sett upp höfuðljós og silast af stað.

Ferðafélagarnir á tindi Huscaran.
Ferðafélagarnir á tindi Huscaran.

Hæsta fjall sem við höfðum klifið

Ég fékk mér sígarettu og reyndi að sýnast kærulaus og hugrakkur, en mikið ósköp var ég lítill. Fimm persónur í bandi, með ca. 15 metra á milli sín. Öll erum við í eigin heimi. Aðskilin frá öllu. Áfram ... áfram. Svona gengur þetta.

Samt er ekki rétt að segja að fjallganga sé tilbreytingarlaus og heilasljóvgandi, þó ekkert gerist t.d. slæmt veður eða einhver veikist. Í kollinum er allt á fleygiferð. Tilveran skýst upp á annað stig. Stundum fyllist maður ólýsanlegri innri gleði. Að vera staddur á þessum stað á þessum tíma, er upphafið og endalokin. En svo læðist að manni efi. „Hvurn  andskotann ertu að gera hér? Af hverju ertu ekki bara heima hjá þér að safna fyrir frystikistu eða mávastelli eins og hinir?“

Ferðin á tindinn gekk vel og skrifar Þorsteinn að hann hafi langað að öskra „Þetta er lífið!“ en verið of upptekin af að anda. Stundin er tindinum var náð hafi líka verið þeim mikilvæg. „Kannski lítilfenglegt í augum annarra, en fyrir okkur heilög stund. Við sigurvegarar þess gagnslausa vorum þarna í gjörsamlega efnislegu tilgangsleysi. Hamingjusöm yfir því að allir höfðu náð tindinum, undirstrikun á því að þetta ferðalag hafði verið sameiginlegt átak okkar allra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert