Í samstarf um að bæta strandlínu

Eydís Líndal Finnbogadóttir og Georg Kr. Lárusson við undirskriftina í …
Eydís Líndal Finnbogadóttir og Georg Kr. Lárusson við undirskriftina í dag. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Fulltrúar Landhelgisgæslunnar og Landmælinga Íslands skrifuðu undir samstarfssamning í dag sem felur í sér samstarf stofnananna um aukið aðgengi almennings að rafrænum kortaupplýsingum og endurbótum að strandlínu landsins.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri Landmælinga Íslands (LMÍ), skrifuðu undir samninginn í dag, en LMÍ hefur eflt miðlun kortagagna sinna á vefnum á undanförnum árum og með samstarfi við Landhelgisgæsluna er stefnt að því að gera mikilvægar landupplýsingar, sem unnar hafa verið með sjómælingum, aðgengilegar almenningi. Þá er að því stefnt að aðgangur að landupplýsingum Landhelgisgæslunnar verði öllum opinn og gjaldfrjáls.

Stofnanirnar tvær telja brýnt að ráðast í endurbætur á strandlínu landsins til þess að tryggja öryggi sjófarenda, fylgjast með hækkandi sjávarborði vegna og loftslagsbreytinga og tryggja faglega skipulagsvinnu.

Von stofnananna er að aukið aðgengi að bættum rafrænum kortaupplýsingum hvetji til aukinnar nýsköpunar, rannsókna og nýrra tækifæra fyrir fólkið í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert