Var í vímu þegar hann olli slysinu

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ökumaður sem var undir áhrifum vímuefna (bæði áfengis og fíkniefna) ók yfir á rauðu ljósi á Höfðabakkabrú í nótt með þeim afleiðingum að hann lenti í árekstri við aðra bifreið. Báðir ökumennirnir voru fluttir á Landspítalann til aðhlynningar eftir slysið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er ekki vitað um meiðsl þeirra. Tjónvaldur var síðan fluttur í fangageymslur lögreglunnar eftir aðhlynningu á slysadeild fyrir rannsókn máls. Flytja þurfti báðar bifreiðar af vettvangi með dráttarbifreið.

Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu voru tveir sjúkrabílar sendir á vettvang sem fluttu mennina á Landspítalann. Dælubíll slökkviliðsins var síðan sendur á slysstað til þess að hreinsa upp olíu sem hafði lekið úr ökutækjunum.

Annar ökumaður var stöðvaður um svipað leyti í Kópavoginum eftir að hafa ekið á móti einstefnu. Sá ökumaður er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi.  Bifreiðin reyndist vera með röng skráningarnúmer og voru númerin klippt af.

Lögreglan hafði afskipti af pari í miðborginni á ellefta tímanum í gærkvöldi vegna vörslu fíkniefna. Handtökuskipun var á manninum þar sem hann óskaðist handtekinn og fluttur til afplánunar í fangelsi og var það gert.

Um tvö í nótt var bifreið stöðvuð í Hafnarfirði en ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og brot á reynslulausn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert