Sýni ábyrgð í útgjöldum og efnahagsmálum

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/​Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að vegna breytinga á hagspá milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga þurfi að stilla af einstaka liði, m.a til að sýna ábyrgð í útgjöldum og efnahagsmálum. Eftir sem áður sé afgangur fjárlaga 1% af landsframleiðslu eða 30 milljarðar og varasjóður um 10 milljarðar.

Þetta kemur fram í færslu á Facebook sem ráðherrann birti í dag. 

Hann segir að ríkisstjórnin sé að auka heildarútgjöld um 4,6% af um það bil 900 milljörðum í fjárlögum ársins 2019. Fyrr á árinu hafi verið áætlað að það tækist að verja 7,2 milljörðum til byggingar nýs spítala en verkefnið hafi tafist. Nú sé áætlað að á næsta ári verði hægt að nýta um 5 milljarða til byggingarinnar.

Sama gildi um fjóra milljarða til innleiðingar á nýju starfsgetumati. Sú stefna hafi ekki breyst. Verkefnið hafi tafist.

Þá skrifar Sigurður, að ekki liggi enn fyrir niðurstöður starfshóps um útfærslu starfsgetumats. Þannig megi varlega áætla að það geti tekið gildi eftir fyrsta fjórðung en þá muni þrír milljarðar falla til á árinu 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert