10 geðhjúkrunarrými í viðbót

Geðhjúkrunarrýmum verður fjölgað á Mörk hjúkrunarheimili. 10 eru fyrir, 10 …
Geðhjúkrunarrýmum verður fjölgað á Mörk hjúkrunarheimili. 10 eru fyrir, 10 bætast við. mbl.is/Hari

Hjúkrunarheimilið Mörk óskaði eftir því við heilbrigðisráðuneytið að fá að breyta 10 almennum hjúkrunarrýmum í sérhæfð geðhjúkrunarrými. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fallist á þetta.

Stjórnendur Markar, hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut, kváðu þörf á fjölgun sértækra úrræða fyrir sjúklinga með alvarleg geðræn vandamál. Þeim bæri að veita viðunandi þjónustu. Nú verður ráðist í aðgerðir með það fyrir augum.

Almennum rýmum fyrir vistmenn hjúkrunarheimilisins verður breytt í geðhjúkrunarrými með tilheyrandi breytingum. Þegar eru 10 slík rými á hjúkrunarheimilinu, á móti 100 almennum rýmum, þannig að þetta eru ekki nýmæli á heimilinu heldur er verið að bæta í þessa aðstöðu.

Tilkynning á vef velferðarráðuneytisins

Aukinn kostnaður við þessar umbætur nemur 15 milljónum króna á ári í rekstri. Heilbrigðisráðherra segir þessa breytingu mikilvæga: „Þótt það séu ekki margir einstaklingar sem þurfi á svona úrræði að halda“, segir hún þetta samt nauðsynlegt. Ekki verði hlúð að geðsjúkum í almennum hjúkrunarrýmum svo sómi sé að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert