120 milljónir til eflingar byggða

Fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga við afhendingu styrkja ásamt samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra …
Fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga við afhendingu styrkja ásamt samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúum í valnefnd. Ljósmynd/Stjórnarráðið

120 milljónum króna var úthlutað til sértækra verkefna sem efla eiga byggðir landsins. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði í dag samninga við landshlutasamtök sveitarfélaga um níu verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024.

Að þessu sinni var 120 milljónum króna úthlutað fyrir árið 2018 til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum, að því er fram kemur í frétt á vef stjórnarráðsins. Alls bárust 26 umsóknir um styrki að fjárhæð tæpar 441 m.kr.

„Það er okkur mikil ánægja að unnt sé styrkja mörg áhugaverð og fjölbreytt verkefni um land allt á grundvelli nýrrar byggðaáætlunar. Ákveðið var að veita styrki að fengnum umsóknum en þetta er í fyrsta sinn sem framlög úr byggðaáætlun eru sett í samkeppnispott með þessum hætti. Fleiri samkeppnispottar af þessu tagi verða auglýstir jafnt og þétt,“ er haft eftir Sigurði Inga í fréttinni.

Markmiðið með framlögum til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra.

Verkefnin níu sem hljóta styrk að þessu sinni eru:

Innviðauppbygging vegna gagnavers á Blönduósi sem hlýtur 20 milljónir, 18 milljón kr. styrk hlýtur stórskipahöfn í Finnafirði, 15 milljónir hvert hljóta Vínlandssetur í Dalabyggð, gestastofa Snæfellsness, nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð á Vestfjörðum og menningarbærinn Seyðisfjörður, þá hlýtur aðgerðaáætlun um sjálfbæra lýðfræðilega þróun miðsvæðis Suðurlands 13,5 milljónir kr., sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði fær 5 milljónir kr. og 3,5 milljónir kr. fara til framleiðsla rafmagns með lághitavatni úr borholu Æ3 við Skógarlón í Öxarfirði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert