90 milljónir til að styrkja starf Barnaverndar

Aðgerðunum er ætlað að styrkja starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur og nemur …
Aðgerðunum er ætlað að styrkja starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur og nemur áætlaður kostnaður við þær um 90 milljónum króna á árinu 2019. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjölga á stöðugildum um fjögur og setja tvær fagskrifstofur á laggirnar samkvæmt tillögu velferðarráðs og barnaverndarnefndar sem borgarráð samþykkti einróma á fundi sínum í dag. Er aðgerðunum ætlað að styrkja starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur og nemur áætlaður kostnaður við þær um 90 milljónum króna á árinu 2019.

Með stofnun skrifstofanna færist Barnavernd Reykjavíkur ofar í skipuriti velferðarsviðs, en þær verða annars vegar á sviði stjórnsýslu, með áherslu á lagalega umgjörð í barnaverndarmálum, gæða- og fræðslumál og hins vegar með áherslu á ráðgjöf og stuðning við börn og foreldra, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Einnig er lagt til að auka verulega fræðsluhlutverk Barnaverndar Reykjavíkur og samstarf við helstu hagsmunaaðila, auk þess að flýta fyrir notkun rafrænna lausna í daglegri umsýslu.

Húsnæðismál Barnaverndar Reykjavíkur verða þá endurskoðuð og unnið er að undirbúningi tillögu um sérstaka starfsemi sem mun halda utan um stuðningsþjónustu á vegum Barnaverndar og þjónustumiðstöðva.

Farið er í aðgerðirnar í kjölfar úttektar RR ráðgjafar og Capacent á skipulagi og verklagi hjá Barnavernd Reykjavíkur og samstarfi Barnaverndar við aðrar stofnanir í málefnum barna og fjölskyldna þeirra. 

Í úttektinni kom fram að „öflugt og faglegt starf sé unnið hjá Barnavernd Reykjavíkur en tækifæri eru til umbóta, bæði í starfsemi Barnaverndar og í samstarfi við þjónustumiðstöðvar og aðra aðila innan borgarkerfisins sem koma að barnavernd,“ að því er segir í tilkynningunni.

„Markmiðið er að efla snemmtæka íhlutun og forvarnir, bæði hjá Barnavernd Reykjavíkur og þjónustumiðstöðvum og styrkja starfsumhverfi ráðgjafa,“ er haft eftir Regínu Ásvaldsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs.

Hákon Sigursteinsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, mun leiða breytingarnar, en áætlað er að auglýsa störf skrifstofustjóra og fleiri stöður á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert