Ekki gjaldgeng í leik án íslenskunnar

Jóhanna segir aðgreiningu eiga sér stað á leikskólunum.
Jóhanna segir aðgreiningu eiga sér stað á leikskólunum. Mynd/Kristinn Ingvarsson

„Vísbendingar um að viss aðgreining eigi sér stað í leikskólunum hafa komið fram. Íslensk börn eru líklegri til að leika við hvort annað, og börn af erlendum uppruna eru líklegri til að leika frekar við önnur börn af erlendum uppruna heldur en íslensk.“ Þetta segir Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum, sem fjallaði í dag um rannsóknina Fararheill á ráðstefnu sem haldin var á vegum Rannung.

Fararheill er rannsókn Jóhönnu, sem er prófessor í menntunarfræðum ungra barna, og Björns Rúnars Egilssonar, doktorsnema við Háskóla Íslands. Var þar leitast við að skoða tengsl barna á tveimur leikskólum og í tveimur grunnskólum.

Við rannsóknina var notast við spjaldtölvur þar sem börnin voru mynduð að leik og voru þau síðan spurð út í myndirnar. Þá kom fram að tungumál og menningararfur hefur stórtæk áhrif á vinasambönd barna.  

„Það var ekki um neina óvild að ræða, þau sýndu hvort öðru umhyggju og samlíðan. Þó virðist það vera að börnin séu ekki gjaldgeng í leiknum ef þau eru ekki með tungumálið á hreinu. Það skiptir þess vegna máli að þeim sé hjálpað í leikskólanum, af því að í gegnum leik læra þau tungumálið með öðrum börnum,“ útskýrir hún.

Breyttur veruleiki 

Jóhanna segir að veruleiki barna  í dag sé breyttur, þar sem hátt í 20% barna í Reykjavík er nú með annað móðurmál en íslensku. Í leikskólunum þar sem rannsóknin var gerð var helmingur barnanna með annað móðurmál en íslensku.

„Við verðum að gæta þess að nýta þetta sem styrkleika — að vera komin með börn frá ólíkum menningarheimum með ólíkan bakgrunn. Það skiptir máli að við séum meðvituð um hvernig best er að vinna með þessum börnum og þar er tungumálið mjög mikið atriði. Miklu máli skiptir að þau hafi góða undirstöðu í sínu eigin tungumáli enda hafa margar rannsóknir sýnt fram á það,“ sagði Jóhanna.

Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum.
Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum. Haraldur Jónasson/Hari

Rannsóknin var gerð meðal elstu barna í leikskólunum og eru þá fjögur ár þar til þau taka sín fyrstu samræmdu próf. „Íslenskuprófin geta verið strembin og þá er aukin hætta á því að börnin bíði skipbrot.“ segir Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert