Nær allir orðið vitni að slysi

Hvítserkur í Húnafirði er vinsæll ferðamannastaður en vegurinn þangað er …
Hvítserkur í Húnafirði er vinsæll ferðamannastaður en vegurinn þangað er hættulegur. Ljósmynd/Árni Torfason

Nær allir ábúendur á Vatnsnesi hafa horft upp á eða komið að slysi á veginum og hjálpað ökumönnum sem lent hafa í óhappi. „Það er ekkert eðlilegt við það ástand og kvíðvænlegt fyrir íbúa að búa við þann ótta að einn daginn þegar þú kemur að bíl utan vegar sé einhver lífshættulega slasaður eða jafnvel látinn.

Þetta segir Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir, íbúi á Vatnsnesi, í færslu á Facebook í dag um ástandið á veginum og slys sem þar hafa orðið á síðustu árum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var gestur á íbúafundi á Hótel Hvítserk í gær þar sem ástand Vatnsnesvegar var rætt. „Upplifun okkar af fundinum var sú að hann hefði verið málefnalegur og góður,“ segir Guðrún Ósk. 

„Ráðherra var mjög skilningsríkur á áhyggjur okkar, tók undir það sem við sögðum og hvatti okkur áfram. Okkar tilfinning var sú að að hann hefði vilja til að koma okkur að.“

Vatnsnes á milli Mið- og Húnafjarðar.
Vatnsnes á milli Mið- og Húnafjarðar. Kort

Guðrún Ósk hélt erindi á fundinum í gær fyrir hönd íbúa, þar sem hún fjallaði meðal annars um fjölda slysa sem orðið hafa á veginum undanfarin ár. Í færslu á Facebook stiklar hún svo á stóru og segir frá upplifun nokkurra íbúa við veginn af slysum sem þeir hafa orðið vitni að. Þá deilir hún ljósmyndum af illa förnum bílum sem ýmist höfðu oltið eða endað utan vegarins.

„Þær spurningar sem brunnu helst á okkur voru hvað væri hægt að gera núna, en það virðist mjög lítið hægt að gera,“ segir Guðrún Ósk. „Við bíðum næstu vikur og vonumst til þess að fá svör, við hættum ekkert eftir þennan fund.“

Guðrún Ósk segir ráðherra hafa sagt að peningar í svona verkefni væru til.

„Við erum mjög bjartsýn en gerum okkur grein fyrir því að þetta er ekki eini vegurinn á Íslandi sem þarfnast lagfæringar. Við höldum samt að við hljótum að vera mjög framarlega, ef ekki fremst, miðað við ástandið.“

„Við vitum að við verðum ekki komin með malbikaðan Vatnsnesveg næsta sumar, svona framkvæmdir taka tíma, en við vonum að það komi kannski fimm ára plan þar sem við myndum sjá bróðurpartinn af Vatnsnesinu með bundið slitlag innan þess tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert