Niðurstaðan mikil vonbrigði fyrir íbúa

Horft til suðurs Framhlið fyrirhugaðra íbúðarhúsa mun snúa að götunni …
Horft til suðurs Framhlið fyrirhugaðra íbúðarhúsa mun snúa að götunni en á baklóð er grænt svæði. Tölvumynd/Arkís

„Tillagan veldur íbúum miklum vonbrigðum. Þar er gert ráð fyrir að byggðar verði 32 íbúðir. Af þeim hafi 24 stæði í bílakjallara. Aðrar íbúðir hafa ekki bílastæði,“ segir Lára Áslaug Sverrisdóttir, lögfræðingur og fulltrúi íbúa í Furugerði í Reykjavík.

Tilefnið er deiliskipulagstillaga umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur fyrir lóðina Furugerði 23, sem verður lögð fyrir borgarráð í dag.

Lára Áslaug segir íbúana óttast að tillagan verði samþykkt enda sé greinilega pólitískur meirihluti fyrir henni. Máli sínu til stuðnings vísar hún til fundar umhverfis- og skipulagsráðs um málið. Þar megi lesa stuðning við fyrirhuguð áform.

Fjallað hefur verið um mótmæli íbúa í Morgunblaðinu. Til upprifjunar snýst málið um þéttingu byggðar á lóð þar sem um árabil var starfrækt gróðrarstöðin Grænahlíð. Lóðin snýr að Bústaðavegi og munu göturnar Espigerði og Furugerði liggja að austur- og suðurenda húsanna. Gert er ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir fatlaða.

Skapar umferðarvanda

Lára Áslaug bendir á að innkeyrsla í bílakjallara verði aðeins frá Furugerði sem auki umferð um þrönga húsagötu. „Eftir breytinguna verða öll bílastæði í götunni í einkaeigu en bílastæði sem nú eru fyrir aðra verða tekin undir aðkomu sorpbíla og fleira. Þetta þýðir að íbúar 8 íbúða, gestir þeirra og aðrir, munu ekki hafa nein bílastæði til afnota í götunni,“ segir Lára Áslaug.

Hún rifjar svo upp að í gildandi aðalskipulagi sé gert ráð fyrir 4-6 íbúðum. „Það er skoðun íbúa að breyta þurfi aðalskipulagi til að heimilt sé að auka byggingarmagn þetta mikið og með því að samþykkja fyrirliggjandi skipulagstillögu sé borgin að fara á svig við lög.

Þá telja íbúar að með því að samþykkja deiliskipulagstillöguna sé borgin að baka sér umtalsverða bótaskyldu, sem verður þegar upp er staðið á kostnað skattgreiðenda. Vísa íbúar til sex dóma Hæstaréttar frá maí 2016 þar sem Mosfellsbær var dæmdur bótaskyldur við sambærilegar aðstæður.“

Lára Áslaug segir öll þessi atriði hafa verið kynnt borginni.

„Það hefur verið óskað eftir samráði við borgaryfirvöld um málið. Þetta hefur verið hunsað.

Það er íbúum óskiljanlegt hvernig kjörnir fulltrúar fara svona fullkomlega gegn sjónarmiðum íbúa, skerða lífsgæði þeirra með því að auka umferð um þrönga húsagötu, auka hávaða og mengun, skerða útsýni og takmarka dagsbirtu inn í þær íbúðir sem fyrir eru. Íbúar eru að ráða sér lögmann sem fara mun með málið fyrir þeirra hönd í framhaldinu.

Íbúar munu gera allt sem lög heimila til að koma í veg fyrir að fyrirliggjandi tillaga nái fram að ganga,“ segir Lára Áslaug.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert