Notalegt rok og rigning um helgina

Hlýindum gæti fylgt dálítið mikil rigning á sunnan- og vestanverðu …
Hlýindum gæti fylgt dálítið mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu. mbl.is/Eggert

Á morgun hvessir af austri og suðaustri og það fer að rigna á Suður- og Vesturlandi. Á laugardaginn bætir í rigninguna á Suðurlandi. Það sem á mannamáli heitir rok og rigning víða um land, segir Haraldur Eiríksson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofunni.

Gengur í suðaustanhvassviðri eða -storm, 15-23 m/s, á morgun. Sunnan- og vestanlands getur orðið varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og er fólk hvatt til að huga að lausum munum. Þar er gul viðvörun í gildi um sinn.

Þó að það blási nokkuð duglega verður engu að síður hlýtt, og eru tveggja stafa tölur víða í kortunum. Hlýjast verður sennilega norðanlands og þar er einnig útlit fyrir að hann haldist þurr. Haraldur segir loftið komið langt sunnan að og sé því hlýrra. Þetta sé þó enginn sumarauki.

Svipað veður verður á sunnudag, en þá nær rigningin þó norður yfir heiðar og fer að draga nokkuð úr vindinum. Áfram verður hlýtt víða, en þó ekki jafn hlýtt og á laugardag. 

Framan af næstu viku verður áfram sunnanátt, milt og þurrt veður og frostlaust á öllu landinu mánudag og þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert