Óvíst hvort viðgerð á Fjordvik borgi sig

Fjordvik á leið í flotkví í dag. Það er nú …
Fjordvik á leið í flotkví í dag. Það er nú komið á þurrt land. mbl.is/Eggert

Ekki er víst hvort gert verði við flutningaskipið Fjordvik að fullu, að sögn verkefnastjóra á svæðinu. Búið er að lyfta því upp í flotkví í Hafnarfirði og verið er að ganga frá eftir þá aðgerð niðri við höfn. Það er sum sé komið á þurrt land.

Fram eftir degi í dag hefur verið unnið að því að dæla olíu áfram úr skipinu til þess að geta reist það við í flotkvínni með góðu móti.

Botninn á skipinu er stórskemmdur og yfirleitt er um að ræða gríðarlega miklar skemmdir. Þetta segir Ásbjörn Helgi Árnason, verkefnastjóri Vélsmiðju Orms og Víglundar, fyrirtækisins sem rekur flotkvíarnar í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is.

Bráðabirgðaviðgerð á skipinu hefst að líkindum á næstu dögum en í dagsbirtu á morgun mæta eigendur og tryggingafélög á staðinn og meta stöðuna. Þá ætti að koma á daginn hvort þeir sjái yfir höfuð ástæðu til þess að gera við svo skemmt skip.

Skipið var dregið inn í Hafnarfjarðarhöfn í dag með mikilli fyrirhöfn. Sú aðgerð kvað hafa gengið smurt fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert