Ríkið sýknað af 320 milljóna kröfu

Hjúkrunarheimilið Ísafold.
Hjúkrunarheimilið Ísafold. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af 320 milljóna króna skaðabótakröfu Garðabæjar vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Ísafoldar á árunum 2013 til 2015.

Garðabær stefndi ríkinu vegna þess sem bærinn taldi vanefndir á greiðslu rekstrarkostnaðar við hjúkrunarheimilið á árunum sem um ræðir. Bærinn fékk daggjöld frá ríkinu fyrir rekstrinum en það fé dugði ekki til.

Reksturinn kostaði 320 milljónum meira en bærinn lagði mismuninn til. Garðabær taldi að ríkið ætti að greiða upphæðina til baka og kallaði hana „uppsafnað rekstrartap“.

Ríkið taldi hins vegar það vera ábyrgð bæjaryfirvalda í Garðabæ að daggjöldin dygðu til rekstursins. Auk þess væri ekki einsdæmi að sveitarfélag legði fé til hjúkrunarheimilis.

Rekstrarafkoma einstaka hjúkrunarheimila geti ekki verið grundvöllur kröfugerðar á hendur ríkinu, enda myndi það fela í sér mismunun milli rekstraraðila að fjárframlag yrði ákvarðað á grundvelli útgjalda þeirra.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ákveðið sé af Alþingi á fjárlögum hver fjárframlög til sveitarfélaga til rekstrar hjúkrunarheimila eru. Kjarninn í málatilbúnaði Garðabæjar sé að hann telji að greiða eigi fyrir uppsafnað rekstrartap vegna þess að daggjöldin dugi ekki fyrir rekstrinum. 

„Ekki er fallist á að í slíkum tilvikum sé um ófyrirséð tilvik að ræða, sem stefnda beri að standa straum af. Það er Alþingi sem ákvarðar fjárveitingarnar. Það er ekki á valdi dómstóla að mæla fyrir um þær. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda,“ kemur fram í dómnum.

mbl.is