Stal 650 kg af humri og keyrði ölvaður

Maðurinn stal miklu magni af humri.
Maðurinn stal miklu magni af humri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í síðustu viku karlmann á þrítugsaldri í eins árs fangelsi, þar af ellefu mánuði skilorðsbundna, fyrir að stela 650 kg af humri, auk fleiri brota. Kona sem var samverkamaður hans í öðrum þjófnaði var dæmd í tveggja mánaða fangelsi, þar af annan skilorðsbundinn.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa aðfaranótt mánudagsins 28. apríl 2014 brotist inn í frystigám fyrir utan fiskverkun á Suðurnesjum og stolið þaðan 650 kg af humri, sem síðar fannst á Vogastapa, en verðmæti þýfisins var samtals 1,8 milljónir króna.

Einnig var maðurinn ákærður fyrir að hafa tekið bifreið í heimildarleysi og fyrir að hafa ræktað kannabis og haft í sinni vörslu 65 kannabisplöntur. Maðurinn var einnig ákærður fyrir umferðarlagabrot en hann keyrði undir áhrifum áfengis og fíkniefna í september fyrir tveimur árum eftir að hafa verið sviptur ökurétti.

Í síðasta ákæruliðnum var maðurinn ákærður, ásamt konu, fyrir að hafa stolið 2.580 kg af álplötum af athafnasvæði sem ætlaðar voru til sölu. Konan var auk þess ákærð fyrir að hafa keyrt undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Fólkið játaði sök samkvæmt ákæru og voru því dæmd til fangelsisvistar eins og áður segir. Bæði eru þau svipt ökurétti ævilangt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert