Varað við erfiðum skilyrðum

Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er í gildi víða á norðan- og austanverðu landinu og eru ferðalangar varaðir við erfiðum akstursskilyrðum og beðnir um að sýna aðgát. Slydda eða snjókoma er á heiðum og fjallvegum norðan- og austanlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands kemur fram að í dag blæs að norðaustan, víða 13-18 m/s. Rigning eða slydda norðan- og austanlands og snjókoma til fjalla, en þurrt á Suður- og Vesturlandi. Dregur úr vindi síðdegis, snjókoma á norðanverðu landinu í kvöld og dálítil rigning syðra. Kólnandi, vægt frost í nótt.

Á morgun hlýnar aftur með vaxandi suðaustanátt og fer að rigna, hvassviðri eða stormur síðdegis en heldur hægari og þurrt að mestu norðaustanlands.

Hvöss sunnanátt og talsverð rigning á laugardag, en þurrt og bjart veður norðaustan til á landinu. Hiti 8 til 13 stig.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðaustan 10-18 m/s, en 18-23 SA-lands fram eftir morgni. Slydda eða rigning N- og A-lands og snjókoma á heiðum, en úrkomulítið á S- og V-landi. Dregur úr vindi síðdegis, norðan 8-15 og snjókoma N-lands í kvöld, en hægari og dálítil væta syðra. Hiti 0 til 6 stig, mildast syðst. Frystir víða í nótt. Gengur í suðaustanhvassviðri eða -storm með rigningu og hlýnandi veðri á morgun, en heldur hægari og þurrt á NA-verðu landinu.

Á föstudag:
Gengur í suðaustanhvassviðri eða -storm með rigningu, einkum S-lands. Hægari vindur og úrkomulítið NA-til á landinu. Hlýnandi veður. 

Á laugardag:
Hvöss suðaustanátt og rigning, en þurrt NA-lands. Hiti 7 til 13 stig. 

Á sunnudag:
Sunnanátt og rigning, einkum SA-lands. Hiti 5 til 10 stig. 

Á mánudag og þriðjudag:
Suðaustanátt og dálítil súld, en léttskýjað N-lands. Hiti 3 til 8 stig. 

Á miðvikudag:
Austlæg átt og þurrt. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost fyrir norðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert