Ákærð fyrir tæp 30 þjófnaðarmál

Hinum ákærða er gefið að sök að stela úr búð …
Hinum ákærða er gefið að sök að stela úr búð í næstum þrjátíu skipti. mbl.is/Arnþór Birkisson

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um framlengt gæsluvarðhald konu sem er ákærð fyrir hátt í þrjátíu smáglæpi. Hún sætir því áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 11. desember.

26 brot eru nefnd í úrskurði Héraðsdóms, sem Landsréttur hefur nú samþykkt, og hin ákærða er sögð undir rökstuddum gruni um mun fleiri. Flest eru þetta brot sem fela í sér annaðhvort þjófnað í verslunum eða vörslu amfetamíns. Oftast gerist hin ákærða sek um hvort tveggja.

Meðal brota eru stolnar snyrtivörur í Hagkaupum að andvirði 36 þúsund króna, peysur og buxur í Smash fyrir 32 þúsund krónur og stolin matvara í Iceland Engihjalla að verðmæti 1.328 króna. Þá fundust eitt sinn 5,16 g af amfetamíni sem hin ákærða geymdi innanklæða.

Verjandi hinnar ákærðu skaut málinu, niðurstöðu héraðsdóms um gæsluvarðhald, til Landsréttar. Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að hin ákærða sé sökuð um slíkan fjölda brota að ráða megi af þeim, að brotin muni halda áfram meðan máli hennar er ólokið.

Úrskurðurinn er hér.

mbl.is