Þörf á 4.000 íbúðum í borginni

mbl.is/Eggert

Samkvæmt nýrri greiningu Capacent á stöðu og horfum á fasteignamarkaði í Reykjavík vantar um 4.000 íbúðir á næstu árum til að fullnægja þörf fyrir nýjar íbúðir í borginni. Eins og staðan er í dag verða hins vegar aðeins byggðar um 1.350 íbúðir í borginni á næstu tveimur árum. 

Niðurstöðurnar eru meðal annars byggðar á samanburði á því hversu margar íbúðir þarf til að hýsa íbúa 25 ára og eldri og því hversu margar íbúðir eru nú í byggingu.

Greiningin var unnin að beiðni skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg og er þetta í fjórða sinn sem Capacent vinnur skýrslu af þessu tagi fyrir borgina. Niðurstöður greiningarinnar voru kynntar á opnu málþingi borg­ar­stjóra um upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis í Reykja­vík í Ráðhúsi Reykja­vík­ur í morgun.

Gert ráð fyrir íbúðum í heimagistingu

Líkt og fyrr segir er talið að þörf sé á um 4.000 íbúðum á næstu árum til að fullnægja þörf fyrir nýjar íbúðir í borginni. Í greiningunni kemur fram að ef tekið er mið af íbúðaþörf vegna íbúafjölgunar í Reykjavík 2018 og 2019 má gera ráð fyrir að það þurfi um 1.800 íbúðir. Við það bætist að á árunum 2007 til 2017 hefði þurft að byggja um 2.000 íbúðir til viðbótar við það sem gert var.

Um 1.350 íbúðir verða fullgerðar í ár og á næsta …
Um 1.350 íbúðir verða fullgerðar í ár og á næsta ári. Samkvæmt nýrri greiningu Capacent á stöðu og horfum á fasteignamarkaði í Reykjavík vantar hins vegar um 4.000 íbúðir á næstu árum til að fullnægja þörf fyrir nýjar íbúðir í borginni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þar að auki má gera ráð fyrir að um 1.000 til 1.700 íbúðir séu nýttar undir íbúðagistingu í Reykjavík ef tekið er mið af upplýsingum frá Hagstofunni um skráðar og óskráðar gistingar í íbúðagistingu og upplýsingum frá Ferðamálastofu um fjölda gistinátta í Airbnb. Gert er ráð fyrir að um 1,5 til 2,5 einstaklingar gisti í hverri íbúð í senn.

Í skýrslunni segir að frekari uppbygging hótelherbergja og áhrif herts eftirlits með heimagistingu ætti að hafa áhrif til fækkunar íbúða í heimagistingu. Áætlað er að það muni draga úr þörf fyrir íbúðir á næstu árum um 200 íbúðir.

Um 700 íbúðir fullgerðar í ár

Gef­in hafa verið út bygg­ing­ar­leyfi fyr­ir 1.344 íbúðir í borg­inni á fyrstu tíu mánuðum árs­ins og er árið orðið metár í bygg­ingu nýrra íbúða í Reykja­vík. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar verða um 700 íbúðir fullgerðar í Reykjavík á árinu 2018. 

Í fyrra voru gefin út tæp 1.100 byggingarleyfi og gera má ráð fyrir að þau skili sér í um 650 fullbúnum íbúðum árið 2019. Því verði til um 1.350 íbúðir á tímabilinu. Heildarmatið er hins vegar að byggja þarf 3.200 til 4.000 íbúðir á árunum 2018 og 2019 til að fullnægja þörf í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka