Landgangar teknir úr notkun vegna veðurhams

12 vélar frá Icelandair bíða á flugvellinum eftir að veður …
12 vélar frá Icelandair bíða á flugvellinum eftir að veður lægi svo þær komist af stað. mbl.is/Eggert

Taka þurfti alla landganga úr notkun á Keflavíkurflugvelli nú síðdegis vegna vindhraða. Stigabílar eru heldur ekki í notkun af sömu ástæðu. Segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, 12 flugvélar frá Icelandair sem fara áttu í loftið síðdegis nú bíða þess að komast af stað.

„Það er verið að bíða eftir að vindinn lægi,“ segir Guðjón.  Í einhverjum tilfellum var byrjað að hleypa fólki um borð í vélarnar áður en tók að hvessa og bíður það fólk nú úti í vél. Í öðrum tilfellum var ekki byrjað að hleypa um borð og bíður það fólk í flugstöðinni.

„Þetta er bara veðurhamurinn. Við erum að bíða eftir að það lægi svo það sé óhætt að halda áfram,“ segir Guðjón.

Björgunarsveitir voru kallaðar út á tveimur stöðum nú síðdegis að sögn Davíð  Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Voru björgunarsveitir kallaðar út í í Reykjanesbæ á sjöunda tímanum af því að þakplötur voru farnar að fjúka og þá var björgunarsveitin í Þorlákshöfn einnig kölluð út nú síðdegis vegna foks á lausamunum.

Hvetur Davíð Már fólk til að hafa augun hjá sér á meðan að mesta veðrið gengur yfir, fylgjast með veðurspánni og fara varlega.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er búist við því að þetta veður geti haldist óbreytt til um 9 eða 10 í kvöld. Þá ætti að lægja storminn.

mbl.is