Varað við stormi

Kort/Veðurstofa Íslands

Spáð er suðaustanhvassviðri eða -stormi sunnan- og vestanlands síðdegis og getur verið varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi að vera á ferð undir Hafnarfjalli og Kjalarnesi. Áfram er spáð hvössu á morgun og talsverðri rigningu. 

„Vaxandi austan- og suðaustanátt í dag, 15-23 m/s og talsverð rigning síðdegis en hægari og úrkomulítið norðaustanlands. Hlýnandi, hiti víða 5 til 10 stig í kvöld.

Hvöss suðlæg átt í nótt og á morgun, með talsverðri eða mikilli rigningu sunnan og vestan til á landinu, en þurrt á Norðausturlandi. Hlýtt í veðri. Síðdegis á sunnudag fer að lægja og jafnframt dregur úr mestu vætunni,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Kort/Veðurstofa Íslands

Á höfuðborgarsvæðinu gildir gul viðvörun frá klukkan 14 í dag til klukkan 22.

„Suðaustanhvassviðri eða -stormur, 15-23 m/s, hvassast í efri byggðum, og talsverð rigning. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón,“ segir í viðvörun frá Veðurstofu Íslands.

Á Suðurlandi gildir gul viðvörun frá klukkan 13 í dag til klukkan 23:

„Suðaustanhvassviðri eða -stormur, 15-23 m/s með talsverðri rigningu. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundinn yfir 30 m/s, einkum undir Eyjafjöllum. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar og er fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.“

Fyrir Faxaflóa gildir gul viðvörun frá klukkan 13 til 23:
Suðaustanhvassviðri eða -stormur, 15-23 m/s með talsverðri rigningu. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundinn yfir 30 m/s, einkum á Kjalarnesi og við Hafnarfjall. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar og er fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.“
Fyrir Breiðafjörð gildir gul viðvörun frá klukkan 14 til miðnættis:
„Suðaustanhvassviðri eða -stormur, 15-23 m/s með talsverðri rigningu. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundinn yfir 30 m/s, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar og er fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.“

Veðurspá fyrir næstu daga

Vaxandi austan- og suðaustanátt í dag, 15-23 m/s og talsverð rigning síðdegis en hægari og úrkomulítið á NA-landi. Hlýnandi, hiti 5 til 10 stig í kvöld. 
Hvöss sunnanátt og áfram vætusamt á morgun, en þurrt NA-lands. Hiti víða 8 til 13 stig.

Á laugardag:

Hvöss suðaustanátt og rigning, en þurrt NA-lands. Hiti 8 til 13 stig. 

Á sunnudag:
Allhvöss sunnanátt og víða rigning, hægari og úrkomulítið síðdegis. Hiti 3 til 10 stig. 

Á mánudag:
Suðaustanátt og dálítil væta S- og V-lands, en léttskýjað á N- og A-landi. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag:
Suðlæg átt og milt veður. Léttskýjað N-til á landinu, en skýjað með köflum syðra. 

Á miðvikudag og fimmtudag:
Hægur vindur og víða bjartviðri, kólnandi veður.

Færð og aðstæður

Suðurland: Víða eru hálkublettir í innsveitum en þjóðvegur eitt er greiðfær. 

Suðvesturland: Hálka er á Krýsuvíkurvegi og í Hvalfirði en hálkublettir eru á Hellisheiði, í Þrengslum, á Mosfellsheiði og í Kjósarskarði.

Vesturland: Það er hálka á Holtavörðuheiði, á Svínadal, á Mýrum og á Vatnaleið en hálkublettir á Bröttubrekku, á Fróðárheiði sem og á norðanverðu Snæfellsnesi. 

Vestfirðir: Hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum. Snjóþekja er á Þröskuldum, á Klettshálsi og á veginum norður í Árneshrepp. 

Norðurland: Víða hálka eða hálkublettir.

Norðausturland: Víða krapi eða snjóþekja. Hálka er í Köldukinn og á Sandvíkurheiði en hálkublettir víðar.

Austurland: Snjóþekja er á Vatnsskarði eystra, hálka á Fjarðarheiði en hálkublettir á Fagradal sem og í Jökuldal. 

Suðausturland: Hálkublettir eru milli Hafnar og Kvískers en hálka milli Kvískers og Víkur í Mýrdal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert