Veita 100 milljónir til neyðaraðstoðar í Jemen

Hjúkrunarkona með jemenskt barn sem þjáist af alvarlegri vannæringu.
Hjúkrunarkona með jemenskt barn sem þjáist af alvarlegri vannæringu. AFP

Utanríkisráðuneytið ætlar að verja 100 milljónum til neyðaraðstoðar í Jemen. Mun framlagið skiptast jafnt milli tveggja stofnana Sameinuðu þjóðanna sem eru í landinu og sinna neyðaraðstoð, annars vegar til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og hins vegar til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins.

„Neyðin er slík að hver mínúta skiptir máli. Við bregðumst við með auknum stuðningi við stofnanir á vettvangi, annars vegar til að sporna gegn yfirvofandi hungursneyð og hins vegar að úrbótum í vatnsmálum til að verjast útbreiðslu smitsjúkdóma,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í fréttinni.

Mikil neyð ríkir í Jemen og hefur ástandið farið hríðversnandi síðustu misserin. Stríðið í landinu hefur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér og eru átökin meginástæða neyðarástandsins. Talið er að um 75% íbúa, eða ríflega 22 milljónir manna, hafi bráða þörf fyrir mannúðaraðstoð og vofir hungursneyð yfir 8 til 12 milljónum manna, 3 milljónir eru á flótta innanlands og þorri þjóðarinnar býr við vannæringu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert