Fyrsta skóflustungan að nýjum miðbæ

Guðjón Arngrímsson, Ásta Stefánsdóttir, Gísli Halldór Halldórsson og Leó Árnason …
Guðjón Arngrímsson, Ásta Stefánsdóttir, Gísli Halldór Halldórsson og Leó Árnason taka fyrstu skóflustungina að miðbænum á Selfossi í rigningunni í dag. Ljósmynd/Aðsend

Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að nýja miðbænum á Selfossi. Forsvarsmenn verkefnisins, Leó Árnason og Guðjón Arngrímsson, ásamt fyrrverandi og núverandi bæjarstjórum Árborgar, þeim Ástu Stefánsdóttur og Gísla Halldóri Halldórssyni, munduðu skóflurnar. Framkvæmdaleyfi var samþykkt af bæjarráði Árborgar á fimmtudaginn.

Fyrirhugað er að reisa alls 33 hús á tveggja hektara svæði sem er miðsvæðið í bænum. Þar á að reisa verslanir, veitingastaði, íbúðir, hótel, sýningarstarf og fleira. Í fyrri áfanga verða reist 13 hús. Stefnt er að því að lokið verði við fyrri áfanga vorið 2020.

Í haust var haldin íbúakosning meðal Árborgarbúa um áform Sigtúns þróunarfélags um miðbæ og voru hugmyndirnar samþykktar með um 60% atkvæða. Frá þeim tíma hefur verið unnið að því að fullklára verkteikningar og girða af byggingarsvæðið.

Batteríið arkítektar hefur hannað miðbæinn og umsjón með framkvæmdum hefur VSÓ ráðgjöf. Samið hefur verið við Borgarverk um jarðvinnu og gatnagerð og Jáverk um byggingu allra húsanna.

Tölvugerð mynd af miðbæjarkjarnanum á Selfossi. Horft til suðurs.
Tölvugerð mynd af miðbæjarkjarnanum á Selfossi. Horft til suðurs. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is