Hagvaxtarstefnan að „líða undir lok“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Drífa Snædal, forseti ASÍ, á fundinum …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Drífa Snædal, forseti ASÍ, á fundinum í dag. mbl.is/​Hari

„Við stöndum á nokkrum tímamótum þegar kemur að efnahagsmálum á Íslandi sem og í heiminum. Sú hagfræðikenning sem hefur mótað efnahagsstefnu 20. aldarinnar, efnahagsstefna sem byggir fyrst og fremst á því að halda áfram hagvexti út í eitt, sú efnahagsstefna er að líða undir lok.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, á fundi VG og verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar um kjara­mál fyrr í dag.

„Gerbreyting“ á efnahagsstjórn í augnsýn

Katrín sagði að efnahagsstefnan væri að renna sitt skeið vegna félagslegra og umhverfislegra ástæðna. „Það er hugsanlega ekkert til sem heitir grænn hagvöxtur og stjórnvöld þurfa að fara að hugsa eftir öðrum leiðum útfrá hagsæld – út frá hagsæld þar sem við erum ekki bara alltaf á uppleið þegar kemur að vexti efnahagsstærðanna heldur horfum á jafnvægi umhverfisþátta, efnahagsþátta og félagslegra þátta.“ 

Hún sagði þá að staða launafólks snerist ekki bara um næstu kjarasamninga heldur einnig hvernig eigi að takast á við loftslagsbreytingar. Það muni þýða gerbreytingu á neysluvenjum, efnahagsstjórn og að horfa þurfi frá vaxtamengi en frekar í átt til jafnvægis. Ekki sé hægt að ræða félagsleg mál án þess að umhverfismálin séu undir. 

Þétt var setið á fundinum í dag.
Þétt var setið á fundinum í dag. mbl.is/​Hari

Mikilvægt að eyða óvissu launafólks

Katrín sagði að jafnframt að húsnæðismálin skiptu „höfuðmáli“ fyrir launafólk. 

„Það liggur fyrir að framboðið er ekki nægjanlegt á húsnæði. Þetta virðist vera einn stærsti áhyggjuvaldurinn í lífi venjulegs fólks. Það er ekki bara kostnaður við húsnæðin sem leggst sérstaklega þungt á láglaunafólk, sem er miklu heldur á leigumarkaði heldur en þeir sem eiga sínar eigin íbúðir, heldur býr það líka við mikið óöryggi, bæði hvað varðar leigukostnað, og einnig hvað varðar það að geta verið á sama stað,“ sagði Katrín.

„Það skiptir miklu máli að við komum okkur saman um fjölbreyttar lausnir á húsnæðismarkaði og eyðum þessari óvissu sem launafólk í landinu býr við þegar kemur að húsnæðismálum,“ sagði Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert