„Skaðlegar staðalímyndir“ í bók Birgittu

Myndin sem Sólveig birtir úr bókinni með færslu sinni.
Myndin sem Sólveig birtir úr bókinni með færslu sinni. Ljósmynd/Sólveig Auðar Hauksdóttir

Mig langaði bara að vekja fólk til umhugsunar um það hvað það væri að lesa fyrir börnin sín og hvetja fólk til að taka þessa umræðu með börnunum sínum,“ segir Sólveig Auðar Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, í samtali við mbl.is.

Sólveig birti í morgun ljósmynd á Facebook af síðu í nýrri barnabók eftir Birgittu Haukdal, þar sem hún gagnrýnir „skaðlegar staðalímyndir“ af starfi hjúkrunarfræðinga sem birtist í bókinni. 

„Hjúkrunarkona“ í kjól aðstoðar lækninn

Í bókinni, sem heitir „Lára fer til læknis“, er sagt frá því og sýnt með mynd hvernig „hjúkrunarkona“ í kjól kemur, tekur við af karlkyns lækni og aðstoðar sögupersónuna Láru eftir að gert hefur verið að fótbroti hennar. Þessa birtingarmynd gagnrýnir Sólveig og biður foreldra að útskýra fyrir börnum sínum að þetta gefi skakka mynd af raunveruleikanum. Þannig hafi starfsheitið hjúkrunarkona t.d. ekki verið til síðan námið varð að háskólanámi.

„Hjúkrunarfræðingar eru bæði karlar og konur. Og þau ganga ekki í kjól og með kappa - nema kannski á jólunum,“ segir Sólveig í færslunni. „Það að smætta hlutverk hjúkrunarfræðings í að vera sæt og fín í kjól að aðstoða lækninn og kenna barni að nota hækjur er ótrúlega ófrumleg og skaðleg staðalímynd á starfi sem er svo mikið flóknara, fjölbreyttara, ábyrgðarmeira og skemmtilegra en fólk gerir sér grein fyrir.

Birgitta Haukdal er höfundur bókarinnar „Lára fer til læknis“.
Birgitta Haukdal er höfundur bókarinnar „Lára fer til læknis“. mbl.is/kristinn

Ekki árás á Birgittu

Sólveig segir að ef Lára myndi fótbrotna í raunheimum myndi fyrsti heilbrigðisstarfsmaðurinn sem hún hitti vera hjúkrunarfræðingur. „Sá næsti líka. Þá myndi hún hitta lækni, svo geislafræðing sem myndi röntgenmynda hana og svo aftur hjúkrunarfræðing sem myndi gifsa hana,“ segir Sólveig. 

Hún segir þá að færslan sé ekki meint sem árás á Birgittu, heldur frekar ábending um að það þurfi snemma að byrja að brjóta niður slíkar staðalímyndir. Starf hjúkrunarfræðinga sé þá víða sett fram á rangan hátt, að hennar sögn.

„Þetta er kannski ekki aðeins út af þessari bók, það eru bara allar þessar staðalímyndir sem við dælum yfir börnin okkar. Þetta er svo ofboðslega algengt, að maður sjái í barnabókum og meira að segja í skáldsögum fyrir fullorðna að hjúkrunarfræðingar séu einhvern veginn einhverjar algjörar aukapersónur og það sést aldrei hvað við erum að gera,“ segir Sólveig að lokum.

Færslu Sólveigar má sjá í heild sinni hér að neðan. mbl.is