Slitlag flettist af á Snæfellsnesi

Óveður er á Vatnaleiðinni á Snæfellsnesi, Fróðarheiði, Útnesjavegi og Bröttubrekku. …
Óveður er á Vatnaleiðinni á Snæfellsnesi, Fróðarheiði, Útnesjavegi og Bröttubrekku. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Slitlag er tekið að flettast af vegi á Snæfellsnesi að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar, en verulega hvasst er nú á Suðvestur- og Vesturlandi. Varar Vegagerðin sérstaklega við veðri í Búlandshöfðanum, þar sem skemmdir hafa orðið á slitlagi vegna foks.

Bætt hefur í vind með morgninum og hafa tafir orðið á bæði innanlands- og millilandaflugi í morgun.

Reikna má með hviðum allt að 35 m/s fram á miðjan dag s.s. utan til á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og við Borgarnes. Svipað á norðanverðu Snæfellsnesi og síðan austur við Hvamm undir Eyjafjöllum.   

Óveður er á Vatnaleiðinni á Snæfellsnesi, Fróðarheiði, Útnesjavegi og Bröttubrekku. Einnig telst óveður í Hvalfirði, á Reykjanesbrautinni og Bláfjallavegi.

Óvenju hlýtt er engu að síður víða á landinu miðað við árstíma og svo var einnig á Litlu-Ávík á Stöndum. „Það var virkilega gaman að koma út í morgun klukkan níu að lesa af hitamælum segir,“ segir Jón Guðbjörn veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík á Litla-Hjalla, fréttavef þeirra Strandamanna, því hitinn var 13,9 stig og hámarkshitinn hafði farið í 15,0 stig með morgninum. Jón segir þetta óvenjulegt í nóvembermánuði og þetta hafi varla gerst betra í sumar síðastliðið.

Færð og aðstæður

Suðurland: Það er hvasst undir Eyjafjöllum og við Markarfljót. Mjög dimm þoka er á Hellisheiði.

Suðvesturland: Talsverðar vindhviður eru á Sandskeiði, og líka á Reykjanesbraut þar sem  vindur stendur þvert á veg. Eins er hvasst á Kjalarnesi, í Hvalfirði og við Hafnarfjall.

Vesturland: Óveður er á Fróðárheiði og norðanverðu Snæfellsnesi. Sérstaklega er varað við veðri í Búlandshöfðanum þar sem skemmdir hafa orðið á slitlagi vegna foks.

Vestfirðir: Hálka er á Dynjandisheiði og krapi á veginum norður í Árneshrepp. Það er hvasst á Kleifaheiði.

mbl.is