„Alvöru“ vetrarveður ekki í kortunum

Úrkomumet fyrir nóvember féll síðastliðinn sólarhring.
Úrkomumet fyrir nóvember féll síðastliðinn sólarhring. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úrkoma í Reykjavík sl. sólarhring, frá 9 í gærmorgun þar til kl. 9 í morgun, var mesta úrkoma á einum sólarhring í nóvember frá upphafi mælinga, eða 47,7 mm. Þetta segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hún segir að „alvöru“ vetrarveður sjáist ekki í kortunum, heldur verði áframhaldandi hæglætisveður. 

Á suðvesturhorninu hefur mikil úrkoma og vindur vart farið framhjá neinum, en hitinn hefur þó farið allt upp í 17 stig, sem getur vart talist eðlilegt svo seint í nóvembermánuði.

„Það er mjög erfitt að segja hvað er eðlilegt, en þetta er ekki það sem maður býst við í nóvember. Loftslagið hjá okkur er þannig að við búumst við köldu veðri. En það er búið að vera nokkuð hlýtt og þetta er svona fyrir ofan meðallag. Síðustu tvo daga hefur verið mikil úrkoma af því að það hefur svo hlýtt loft komið úr suðri og það hefur bara hellst yfir okkur sunnan- og vestanlands,“ segir Birta Líf.

Birta Líf segir að ekki sé útlit fyrir „alvöru“ vetrarveður í núverandi kortum. 

„Fyrir utan smá strekking á morgun, þá er í raun öll næsta vika frekar hægir vindar og úrkomulítið, og það fer kólnandi hjá okkur. Þegar við erum að tala um „alvöru“ vetrarveður þá tengir maður það við snjó og mikinn vind, en það er í raun ekki í kortunum eins langt og við sjáum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert