Enn logar á Hvaleyrarbraut

Húsið er verulega illa farið eftir eldinn og enn logar …
Húsið er verulega illa farið eftir eldinn og enn logar í einu rými hússins. mbl.is/​Hari

Enn logar eldur í iðnaðarhúsnæði á Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði og hefur slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu verið með vakt á staðnum í alla nótt. Verulega hefur þó dregið úr umfanginu og voru tveir menn á vakt þar í nótt á meðan veðrið var sem verst.

Rúnar Helgason, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir að staðan verði metin í birtingu. „Það logar enn þó lítið sé,“ segir hann og kveðst vona að slökkviliðið nái þá að setja upp áætlun um að slökkva endanlega í eldinum í dag.

Eldurinn sem logar, er í rými sem eldur hefur verið í frá því á aðfaranótt laugardags og hefur því verið mikill eldmatur á því svæði.

Spurður hvort að lögregla fái brunavettvanginn afhentan til rannsóknar í dag, segist Rúnar telja það líklegt. „Ég sagði nú í gær að maður væri hættur að spá fyrir um endalokin á þessu, en ég trúi þó eiginlega ekki öðru.“ 

Eld­ur­inn kviknaði á ell­efta tím­an­um á föstudagskvöld og breidd­ist ákaf­lega hratt út. Aðstæður voru eld­fim­ar. Um var að ræða harðviðar­verk­stæði og ofan á það blés rok all­hressi­lega fram eft­ir nóttu. Um sextíu slökkviliðsmenn voru þar að störfum þá nótt. Þegar mest lét í gær slökkviliðsmennirnir fimmtán, en á tíunda tímanum í gærkvöldi voru þeir orðnir fimm.

Töluvert annríki var þá hjá slökkviliðinu í nótt vegna vatnsveðurs og sjúkraflutninga, en töluvert var um að vatn flæddi inn í kjallara og fyndi sér leið í gegnum þök í vatnsveðrinu. „Þetta var frekar lítið á öllum stöðum, en engu að síður hvimleitt fyrir viðkomandi,“ segir Rúnar og kveður tilkynningar um vatnstjón hafa borist allt frá Völlunum í Hafnarfirði og yfir í efstu hverfi Mosfellsbæjar.

mbl.is