„Helgispjöll“ í Víkurkirkjugarði

Vigdís flutti ávarp á gjörningi Vina Víkurgarðs í dag og …
Vigdís flutti ávarp á gjörningi Vina Víkurgarðs í dag og ræddi meðal annars um þá venju Íslendinga að rekja ættir sínar. mbl.is/Hari

„Þetta er alveg gríðarlega verðmætt landsvæði, bara fyrir hjartað okkar og hugsun,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, um áformaða byggingu hótels á reit þar sem áður var Víkurkirkjugarður en nú Víkurgarður eða Fógetagarður. Vigdís er ein þeirra sem barist hafa ötullega fyrir því að ekki verði byggt á reitnum og er tilbúin til að safna fyrir skaðabótum ef þær þarf að greiða framkvæmdaaðilum.

Í dag mætti fjöldi fólks á gjörning í Víkurgarði „til að mótmæla því að grafir 600 Reykvíkinga verði lagðar undir hótel“, eins og segir í fréttatilkynningu frá Vinum Víkurgarðs. Á gjörningnum flutti Vigdís ávarp og afkomendur nokkurra þeirra sem grafnir eru í garðinum lásu upp nöfn þeirra sem voru jarðsett í Víkurkirkjugarði frá 1817 til 1838. Afkomendurnir mótmæltu því að raska ætti ró forfeðra þeirra. 

„You with all that space“

„Þetta heitir á erlendu máli sacrilege eða helgispjöll. Það er verið að ganga of langt með því að byggja ofan á kirkjugarði. Og í þokkabót að byggja svona stórhýsi í þessum viðkvæma innbæ, gamla bænum í Reykjavík. Eyðileggja Reykjavík. Það er nú nóg komið af því,“ segir Vigdís í samtali við blaðamann mbl.is.

Þegar Vigdís er spurð hvort ekki sé mikilvægt að byggja á svo verðmætu svæði svarar hún því til að menningarlegt verðmæti gamla innbæjarins og Víkurgarðs sé mikið og það megi ekki vanmeta. 

„Mér finnst stundum gengið eilítið of langt í hugsun um peninga. Það sagði einu sinni við mig breskur rithöfundur, þegar hann horfði á stórbyggingar hérna sem voru dálítið krefjandi, þessa frægu setningu: and you with all that space. Þá sá hann landið og allt þetta rými sem við höfum. Honum fannst þetta alveg hlægilegt.“

Tilbúin í að standa með söfnunarbauk í Kringlunni

Vigdís er boðin og búin að aðstoða borgina við að falla frá áformunum um byggingu hótelsins. „Ef að þeir treysta sér ekki til að falla frá þessari hugmynd vegna þess að þeir þurfi að borga einhverjar skaðabætur þá er ég alveg til í að standa fyrir söfnun, ég skal standa með bauk niðri í kringlu og safna fyrir skaðabótunum.“

Fjöldi fólks var viðstaddur gjörninginn í Víkurgarði. Þar lásu afkomendur …
Fjöldi fólks var viðstaddur gjörninginn í Víkurgarði. Þar lásu afkomendur upp nöfn þeirra sem voru jarðsett í Víkurkirkjugarði frá 1817 til 1838. mbl.is/Hari

Hvað varðar viðbrögð frá borgaryfirvöldum við andstöðu Vina Víkurgarðs segir Vigdís: „Við erum búin að kynna þetta en við vitum ekki meir. Við skulum ekki gleyma því að í borgarstjórn Reykjavíkur er skynsamt fólk. Það bara má ekki byggja ofan á kirkjugarð, fyrr má nú vera plássleysið, you with all that space.“

„Þetta er mín Reykjavík“

Spurð að því hvers vegna þetta mál standi Vigdísi svona nærri segir Vigdís. „Þetta er mín Reykjavík. Þetta er höfuðstaðurinn minn, ég er alin upp hérna og ég á Reykjavík með okkur öllum. Við eigum hana saman öll, og manni er ekki sama um hvað sé gert við eigur manns.“

Fimm heiðursborgarar Reykjavíkur eru á meðal þeirra sem standa á bak við Vini Víkurgarðs. Einn af þeim er Friðrik Ólafsson, stórmeistari í skák. Hann tekur undir með Vigdísi. „Við erum heiðursborgarar og okkur þykir vænt um Reykjavík og að það fari ekkert úrskeiðis.“

„Ósómi“ á ábyrgð borgarinnar

Friðrik tekur fram að fyrirhuguð hótelbygging sé á ábyrgð borgarinnar. „Þetta er allt saman borgin sem hefur staðið fyrir þessum ósóma. Þeir sem voru á undan pössuðu upp á að þetta væri fallegt.“

Vigdís er lítt hrifin af þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Reykjavík síðustu ár. Þá nefnir hún sérstaklega Hafnartorg sem reis nýlega fyrir neðan Arnarhól. „Ég er afskaplega sorgbitin yfir húsunum fyrir neðan Arnarhól, verulega sorgbitin. Húsin ganga svo á gamla bæinn, á útsýnið yfir Arnarhól og yfir á gamla stjórnarráðið suður eftir Lækjargötu.“

„Til í að hneigja okkur djúpt á himnum“

Hún tekur þó fram að fyrirhuguð bygging hótels í Víkurgarði sé af verri toga en bygging Hafnartorgs. „Það er náttúrulega algjörlega ófyrirgefanlegt að byggja ofan á kirkjugarði. Þetta verður ekki augnayndi gömlu Reykjavíkur og getur aldrei orðið það.

Við skulum halda gömlu Reykjavík, bæði með timburhúsum og steinhúsum, eins ósnortinni og mögulegt er því við erum líka að hugsa um framtíðina. Framtíðin þakkar okkur ekki fyrir að hafa byggt svona en hún þakkar okkur ef okkur tekst að stoppa þetta. Og við erum alveg til í að hneigja okkur djúpt á himnum.“

Friðrik tekur undir lokaorð Vigdísar. „Já, mjög djúpt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina