Innflytjendur lagðir í meira einelti

Samkvæmt nýrri rannsókn verða börn fædd erlendis fyrir meira einelti …
Samkvæmt nýrri rannsókn verða börn fædd erlendis fyrir meira einelti en önnur í skólanum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Börn sem fæðast erlendis eru mun líklegri en innfædd til þess að verða fyrir einelti í íslensku skólakerfi. Þetta kemur fram í íslenska hluta nýrrar fjölþjóðlegrar rannsóknar að nafni HBSC, um heilsu og lífskjör skólanema.

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ, kynnti þessar niðurstöður á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir sem var haldin í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi á föstudag.

Rannsókn Vöndu sem gerð var í 6., 8. og 10. bekk á Íslandi leiddi í ljós að meðal þeirra barna sem líða einelti nokkrum sinnum í viku eru innflytjendur 29% og innfæddir 71%. Meðal þeirra sem eru ekki lögð í einelti eru innflytjendur 10% og innfæddir 90%. Eftir því sem eineltið í mælingum könnunarinnar hækkaði jókst hlutfall innflytjenda.

Mjög áríðandi að móta sér stefnu

Vanda segir að nú sé ögurstund fyrir Íslendinga í innflytjendamálum. Þeir þurfi að ákveða hvert þeir vilji stefna.

„Ég held að við þurfum að læra af öðrum þjóðum. Hvaða mistök voru gerð þegar þau voru í svipaðri stöðu og við, og hvað var gert vel?“ veltir Vanda fyrir sér. Innflytjendum er að fjölga hérlendis. Árið 2012 voru þeir 8% og 2017 voru þeir 10,6%, skv. Hagstofunni. Því verður Ísland, segir Vanda, að móta sér stefnu.

Það eru fólksflutningar í gangi. Heimurinn minnkar og það er okkar ábyrgð að taka aðfluttum fagnandi, segir Vanda. „Það þarf að tryggja að þau aðlagist og finnist þau tilheyra hóp. Ef þau fá ekki að tilheyra hópnum geta þau leitað í umhverfi sem er kannski ekki gott fyrir þau,“ segir Vanda.

Það vakti sérstaka athygli Vöndu, er að töluverðu máli skiptir hvaðan nemendurnir komu. Krakkar frá Danmörku eða Svíþjóð voru langt frá því að vera eins líkleg til þess að verða fyrir einelti og krakkar sem koma lengra að, eins og frá Póllandi, Kína eða Taílandi. „Þessu þarf að gefa sérstakan gaum,“ segir Vanda.

Vanda Sigurgeirsdóttir lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ. Hún …
Vanda Sigurgeirsdóttir lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ. Hún kallar eftir breytingum. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert