Minntust fórnarlamba umferðarslysa

Á minningarathöfninni voru starfsstéttir viðbragðsaðila heiðraðar.
Á minningarathöfninni voru starfsstéttir viðbragðsaðila heiðraðar. Haraldur Jónasson/Hari

Þyrla landhelgisgæslunnar og viðbragðsaðilar stilltu sér upp í minningarathöfn við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík þar sem minnst var fórnarlamba umferðarslysa. 

Í dag er alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa, en í tilefni af því efndi Samgöngustofa til minningarathafnar. Hliðstæð athöfn er haldin víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna, sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember minningu fórnarlamba umferðarslysa. 

Sú hefð hefur skapast á Íslandi að viðbragðsaðilar séu einnig heiðraðir á þessum degi. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á þyrlupalli bráðamóttökunnar rétt fyrir athöfnina og var ökutækjum lögreglunnar og auk annarra viðbragðsaðila stillt upp við þyrluna.

Þá var mínútuþögn til minningar fórnarlamba umferðarslysa en auk þess hélt Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra, ávarp þar sem hann greindi frá tilgangi dagsins. 

„Allir sem taka þátt í þessu hafa gert það af heilum hug og tækifærið hefur verið notað til að sýna starfsfólki Landspítalans hve ómissandi það er í okkar daglega lífi, öryggisnetið sem grípur okkur þegar út af bregður,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu. 

Frá fyrsta banaslysinu sem varð, fram að 30. október, hafa 1564 látist í umferðinni á Íslandi að því er fram kemur á heimasíðu Samgöngustofu. Þar segir ennfremur að um það bil 4.000 einstaklingar láti lífið og hundruð þúsunda slasist í umferðinni í heiminum á degi hverjum en enn fleiri þurfi að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá vegna þessa.  

Haraldur Jónasson/Hari
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra hélt ávarp á athöfninni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra hélt ávarp á athöfninni. Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert