Báðar uppsagnirnar réttmætar

Berg­lind Rán Ólafs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Orku nátt­úr­unn­ar, Helga Jóns­dótt­ir, starf­andi for­stjóri …
Berg­lind Rán Ólafs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Orku nátt­úr­unn­ar, Helga Jóns­dótt­ir, starf­andi for­stjóri OR og Bryn­hild­ur Davíðsdótt­ir, formaður stjórn­ar OR fóru yfir niðurstöður úttektarinnar á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, forstöðumanns hjá Orku náttúrunnar, í haust var réttmæt. Það á sömuleiðis við um uppsögn Bjarna Más Júlíussonar, framkvæmdastjóra Orku nátúrunnar. Í úttektinni er að finna ábendingar um framkvæmd uppsagnanna og hvatt er til að skerpt verði á verkferlum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðu úttektar á starfsmannamálum OR sem kynntar voru á blaðamannafundi í dag. 

Áslaug Thelma fékk skýringar á uppsögn sinni en í niðurstöðum úttektarinnar segir að frekari skýringum sem boðnar voru fram á fundi með henni hafi verið hafnað. Í skýrslunni segir jafnframt að Áslaug Thelma hefði átt að fá skriflegar skýringar þegar við uppsögn. 

Bjarni snýr aftur til starfa

Á fundinum var einnig tilkynnt að Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, snýr aftur til starfa þriðjudaginn 28. nóvember, en hann steig til hliðar á meðan málið var til skoðunar og hefur Helga Jónsdóttir sinnt starfi formanns OR í hans fjarveru. Þá mun Þórður Ásmundsson, sem átti að taka við stöðu framkvæmdastjóra hjá Orku náttúrunnar, sömuleiðis snúa aftur eftir leyfi. 

Starfsfólk OR almennt ánægt í starfi

Í niðurstöðu úttektinnar segir að vinnustaðarmenning hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjum sé betri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR, er í heildina ánægð með niðurstöðu könnunar á vinnustaðarmenningu hjá OR og dótturfyrirtækjunum.  

„Í ljósi þess hvernig umræðan þróaðist þá var mikilvægt að skoða hvort brotið hafði verið á fólki eða hvort að ásakanir um óheilbrigða vinnustaðamenningu ættu við rök að styðjast. Niðurstöðurnar staðfesta að svo er ekki. Við tökum ábendingarnar í skýrslunni alvarlega og munum vinna skipulega úr þeim. Áreitni og einelti eiga ekki að líðast,“ er haft eftir Brynhildi í tilkynningu frá OR. 

Meðal helstu niðurstaða könnunar sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði meðal starfsfólks OR og dótturfélaga í október er að starfsánægja er meiri meðal kvenna hjá OR heldur en karla og að starfsánægja er umtalsvert meiri en mælist almennt á íslenskum vinnumarkaði.

Í niðurstöðunum kemur einnig fram að 0,7% starfsmanna hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu hjá OR á síðustu 12 mánuðum, sem er talsvert minna en gengur og gerist á vinnumarkaði. Þá hafa 3% starfsmanna orðið fyrir einelti í starfi sínu hjá OR síðustu 12 mánuði, sem er einnig minna en gengur og gerist á íslenskum vinnustöðum.

Niðurstöður úttektarinnar eru nú aðgengilegar á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur að undanskildum þeim hluta úttektarinnar sem fyrirtækinu er ekki heimilt að birta vegna persónuverndarlaga. Verður það í höndum þeirra sem þar er fjallað um hvort viðkomandi kaflar koma fyrir almenningssjónir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert