Draga úr vægi greininga í skólastarfi

Frá blaðamannafundi vegna menntastefnu Reykjavíkurborgar í dag.
Frá blaðamannafundi vegna menntastefnu Reykjavíkurborgar í dag. mbl.is/​Hari

Einfalda á stoðkerfi við börn með sérstakar þarfir í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar á með það að markmiði að veita börnum þjónustu í nærumhverfi þeirra. Áhersla verður lögð á snemmtæka íhlutun og markviss inngrip og dregið verður úr vægi greininga sem forsendu fjárveitinga.

Þetta er meðal aðgerða sem farið verður í á árunum 2019 til 2021 samkvæmt nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030.

Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins, en menntastefnan byggir á grundvallarþáttunum félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði.

Auka á vægi náttúrugreina, stærðfræði, útináms og sköpunar.
Auka á vægi náttúrugreina, stærðfræði, útináms og sköpunar. mbl.is/Eggert

Reykjavíkurborg ætlar að veita nauðsynlegan stuðning í formi almennra aðgerða á næstu þremur árum til þess að fylgja menntastefnunni eftir og ná markmiðum hennar og í byrjun desember verða settir af stað verkefnahópar sem skila eiga tillögum um innleiðingu aðgerða fyrir 1. mars.

Meðal aðgerða sem fara á í næstu þrjú árin er að efla málþroska, lestrarfærni og lesskilning allra barna, auka vægi náttúrugreina, stærðfræði, útináms og sköpunar, tryggja börnum jafnari tækifæri til fjölbreytts list- og verknáms og fjölga fagmenntuðu starfsfólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert