Mun fleiri tilkynningar um vopnaburð

Sérsveit lögreglunnar sinnti 298 vopnuðum verkefnum og útköllum í fyrra …
Sérsveit lögreglunnar sinnti 298 vopnuðum verkefnum og útköllum í fyrra en 108 árið 2016. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglu bárust 174 tilkynningar vegna vopnaðra einstaklinga í fyrra en 83 tilkynningar árið 2016. Það sem af er ári eru tilkynningarnar 157. Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Smára McCarthy, þingmanns Píarata.

Smári spyr þar dómsmálaráðherra um vopnuð verkefni og útköll sérsveitarinnar.

Í svari Sigríðar kemur fram að ástæða fjölgunarinnar stafi meðal annars af breytingu á eðli brota og samsetningu brotamanna í landinu. Þær upplýsingar hefur hún frá embætti ríkislögreglustjóra. Ekki hafa verið gerðar breytingar á starfsreglum eða aðgerðavenjum lögreglu á undanförnum árum.

Sérsveit lögreglunnar sinnti 298 vopnuðum verkefnum og útköllum í fyrra en 108 árið 2016. Það sem ári eru verkefnin 177.

Dómsmálaráðherra segir enn fremur að það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar að fjölga vopnuðum verkefnum eða útköllum lögreglu. Það sé hins vegar hlutverk lögreglu að bregðast við þeim tilkynningum sem henni berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert