Rannsókn á neðri hæðinni lokið

Rannsókn lögreglu á neðri hæð hússins á Hvaleyrarbraut 39, sem brann um helgina, er nú lokið og hefur hún verið afhent tryggingafélagi eigenda. Þetta segir Skúli Jóns­son stöðvar­stjóri á lög­reglu­stöðinni á höfuðborg­ar­svæðinu í sam­tali við mbl.is.

Rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar í Hafnar­f­irði og tækni­deild lög­reglu voru að störfum á brunastaðnum frá því fyrir hádegi í dag og mun vinna lögreglu á efri hæðinni halda áfram á morgun.

„Þetta snýr að tæknideildinni og störfum hennar og þeir reikna með að vera að á morgun líka. Þannig er staðan núna,“ segir Skúli.

Lög­reglu­vakt var í alla nótt á Hval­eyr­ar­brautinni, en lög­regla fékk bruna­vett­vang­inn af­hent­an um kvöld­mat­ar­leytið í gær eft­ir að slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu tókst að ráða niður­lög­um elds­ins tæp­um tveim­ur sól­ar­hring­um eft­ir að til­kynn­ing um hann barst.

Eld­ur­inn kviknaði á efri hæð Hval­eyr­ar­braut­ar 39 á ell­efta tím­an­um á föstu­dags­kvöld þar sem harðviðar­verk­stæði var til húsa. Það var svo klukk­an 19.10 í gær­kvöldi sem slökkvilið lauk störf­um á vett­vangi og af­henti lög­reglu staðinn.

Auglýsa eftir myndum af fyrstu stundum brunans

Lögregla biðlar nú til þeirra sem kunna að hafa undir höndum myndefni af fyrstu stigum brunans að hafa samband, en myndir sem sýna hvar eldurinn kom fyrst upp geta aðstoðað við rannsókn á upptökum brunans.

Eru þeir sem kunna að luma á slíkum myndum beðnir að hafa samband við lögreglu í gegnum Facebook, netfangið logregla@logregla.is, eða með því að hafa sam­band við lög­regl­una á höfuðborg­ar­svæðinu í síma 444-1000.

Lögregla tók við brunavettvanginum í gærkvöldi og hóf rannsókn á …
Lögregla tók við brunavettvanginum í gærkvöldi og hóf rannsókn á upptökum brunans í dag. mbl.is/​Hari
mbl.is