Sagafilm hlýtur Hvatningaverðlaun jafnréttismála 2018

Hilmar Sigurðsson, Hrönn Þorsteinsdóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
Hilmar Sigurðsson, Hrönn Þorsteinsdóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. Ljósmynd/Ólafur Már Svavarsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra veitti Sagafilm Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2018 á fundi um Jafnréttismál sem haldinn var í Háskóla Íslands í morgun.

Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sagafilm, veitti Hvatningarverðlaununum viðtöku ásamt Hrönn Þorsteinsdóttur, fjármála- og mannauðsstjóra fyrirtækisins. 

Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála, sem nú eru veitt í fimmta sinn, er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem hafa jafnrétti að leiðarljósi í starfsemi sinni og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að jöfnum möguleikum kynjanna til starfsframa, jöfnum launum, jafnvægi í kynjahlutföllum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið, að því er segir í tilkynningu. 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð standa að Hvatningaverðlaunum jafnréttismála og er landsnefnd UN Women á Íslandi sérstakur samstarfsaðili. Þá er Háskóli Íslands nýr samstarfsaðili Hvatningaverðlauna jafnréttismála.

Í áliti dómnefndar segir m.a.: „Árangur fyrirtækisins í jafnréttismálum ber þess merki að stjórnendur hafa sett skýr markmið og óhikað  hrundið þeim í framkvæmd. Saga Film starfar í geira þar sem karlar hafa verið ráðandi og því nauðsynlegt að hafa einbeittan vilja til að breyta því. Meðvitaðar ákvarðanir hefur þurft til að tefla fram kvenkyns leikstjórum og handritshöfundum. Ákvarðanir hafa síðan áhrif á framleiðslu fyrirtækisins þar sem glöggt má sjá að hlutur kynjanna hefur jafnast og konur fengið aukið vægi. Sögurnar sem sagðar eru spegla þannig betur en áður raunveruleikann.“

Helga Lára Haarde, var formaður dómnefndar, og skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Þorsteinn Kári Jónsson frá Festu, Arnar Gíslasson frá Háskóla Íslands og Bergþóra Halldórsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert