Átta mánuði að svara um Helguvík

Kísilverksmiðjan United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðjan United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þórólfur Dagsson, talsmaður andstæðinga við stóriðju í Helguvík, hefur beðið tæplega átta mánuði eftir svari við fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um hvort gert hafi verið óháð áhættumat um nálægð málmbræðsluofna við olíudreifingar- og geymslustöðvar í Helguvík við íbúabyggð, að því er fram kemur í samtali við mbl.is.

Skipulagsstofnun hefur unnið að mati á umhverfisáhrifum og stendur til að félagið Stakksberg fjárfesti 4,5 milljarða króna í að bæta úr vanköntum kísilversins í Helguvík.

Frestur til þess að skila athugasemdum við tillögu Skipulagsstofnunar að umhverfismati er fimmti desember.

„Það er mjög mikilvægt að þessu verði svarað fyrir þann tíma. Ég hef ekki fengið staðfest að slíkt mat [um nálægð við olíugeymslustöðvar] liggi ekki fyrir, en ég er búinn að bíða eftir svörum lengi. Nú er krafan um svör mun meira áríðandi vegna þess að þetta skip fór inn í grjótgarðinn, sá þáttur er ekki einu sinni tekin inn í myndina,“ segir Þórólfur.

Vísar hann til þess að flutningaskipið Fjordvik strandaði í Helguvík í byrjun nóvember.

Þórólfur Dagsson.
Þórólfur Dagsson. Ljósmynd/Aðsend

Hugmyndin að fyrirspurninni vaknaði eftir að hafa farið í gegnum það áhættumat sem liggur fyrir, að sögn Þórólfs. Hann segir hvert áhættumat taka til ákveðinna þátta, en að ekki liggi fyrir heildstætt mat þar sem tekið er tillit til allra þátta. Þá hafa skapast aðstæður sem ekki hafa verið gert ráð fyrir þegar Fjordvik strandaði.

„Það er ekki til áætlun um strand olíuskips á svæðinu. Það er gert lítið úr þessum þáttum og segir í áhættumati sem varðar olíubirgðastöðina að stöðinni stafi engin hætta af þessum kísilmálmbræðslum, en samt gefur [það] þann tón að það geti skapast hætta við aflestun á olíu úr skipunum vegna neistamyndunar,“ staðhæfir talsmaðurinn og bætir við að ekkert liggi fyrir sem tekur til strands.

„Það fer skip upp í garðinn og skapast gríðarleg hætta á svæðinu vegna þess að það lekur olía úr skipinu og þarna er ein helsta olíubirgðastöð á landinu. Það eru tankskip sem mæta þarna með flugvélabensín,“ segir hann.

Olían skapar hættu

Þórólfur segir olíuleiðslur liggja í um 200 metra fjarlægð frá bræðsluofni United Silicon með fyrirhugaðri stækkun. Hráefnisgeymslur Thorsil og fyrirhuguð færibönd frá höfninni verða nánast ofan á olíuleiðslum sem leiða frá höfninni og að birgðastöðinni og fyrirhugað ofnhús í undir 100 metra fjarlægð frá birgðastöðinni sjálfri.

„Ef þessir brennsluofnar væru í gangi á meðan það væri norðankaldi og það færi þarna olíuskip í grjótgarðinn. Þú slekkur ekki á svona brennsluofni með einum takka, það tekur fleiri klukkutíma fyrir svona ofna að kólna,“ segir hann.

Þóknanleg meðferð

Hann sendi ráðuneytinu fyrirspurn 28. mars og var henni svarað á þann veg að erindinu yrði vísað til Umhverfisstofnunar. Þórólfur segist hafa ítrekað fyrirspurn sína með mörgum símtölum og fékk hann sendan tölvupóst frá ráðuneytinu 25. október þar sem erindinu er vísað til Umhverfisstofnunar á ný til „þóknanlegrar meðferðar“ og er beðist afsökunar á töfum við meðferð málsins.

mbl.is