Breytingar á hönnun kostað 23 milljónir

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breytingar á hönnun nýrrar skrifstofubyggingar Alþingis hafa kostað rúmar 23 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata.

Ákveðið var að gera breytingar á hönnun byggingarinnar til að ná niður kostnaði. Breytingarnar eiga að nýtast verkefninu með beinum hætti.

Upprunalega kostnaðaráætlunin við undirbúningsvinnu að byggingunni hljóðaði upp á tæpar 312 milljónir króna. Varðandi núverandi stöðu hljóðaði verðbættur ráðgjafasamningur í september upp á tæpar 346 milljónir króna.

Fram kemur að í samkeppnistillögu vegna byggingarinnar, sem var valin af dómnefnd, er gert ráð fyrir sérstöku forsetahúsi sem hýsir þá starfsemi sem tengist forsetaembættinu. Ekki var óskað sérstaklega eftir slíku í samkeppnislýsingu.

Einnig kemur fram í svarinu að notkunarkröfur byggingarinnar hafi ekki breyst frá útboði. Með tilkomu byggingarinnar þarf Alþingi ekki lengur að leigja húsnæði undir hluta starfseminnar sem sé mjög óhagkvæmt vegna hás leiguverðs í Kvosinni.

Aðspurður segir Steingrímur einnig óhagræði af því að starfsemi Alþingis sé nú ekki öll á alþingisreitnum auk þess sem þingflokkarnir búa ekki allir við sömu aðstöðu. Húsnæði sem Alþingi á við Kirkjustræti verður áfram nýtt sem skrifstofuhúsnæði fyrir starfsmenn þingsins. Nýbyggingin mun rúma skrifstofur þingmanna og fundarherbergi þingflokka og nefnda, og einnig vinnuaðstöðu starfsfólks nefndasviðs og þingflokka eins og upphaflega var áætlað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert