„Ísland á að vera eign þjóðarinnar“

Með kaup­unum á Ratcliffe 86,67% hlut í veiðifé­lag­inu Streng ehf., …
Með kaup­unum á Ratcliffe 86,67% hlut í veiðifé­lag­inu Streng ehf., sem er með Selá og Hofsá, sem sjá má á myndinni, í Vopnafirði á leigu. Ljósmynd/ÞGÞ

„Þetta kemur eins og blaut tuska í andlitið á manni,“ segir Jóna A. Imsland um kaup breska kaupsýslumannsins Jim Ratcliffe á jörðum á Norðausturlandi. Jóna stendur fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Alþingi að herða reglur um jarðakaup á Íslandi.

„Ísland á að vera eign þjóðarinnar,“ segir í yfirskrift undirskriftasöfnunarinnar og á síðunni eru settar fram sex kröfur sem Jóna vill að Alþingi setji í lög. Kröfurnar snúa meðal annars að því að sá sem kaupi land á Íslandi þurfi að eiga lögheimili hér á landi, að ríkið og sveitarfélög eigi sameiginlegan forkaupsrétt að öllu landi og að skýrt sé að þjóðin eigi auðlindir landsins.

Jóna stofnaði Facebook-síðuna „Seljum ekki Ísland“ á sínum tíma þegar Huang Nubo hugðist kaupa Grímstaði á fjöllum en undirskriftasöfnunin sem nú stendur yfir var sett af stað í haust.

Jóna A. Imsland stendur fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað er …
Jóna A. Imsland stendur fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Alþingi að herða reglur um jarðakaup á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Um 3.500 undirskriftir hafa safnast

„Ég er hrædd um að ef að útlendingar og einhverjir græðgiskaupmenn fái yfirráð yfir landsvæðum komi þeir til með að selja hæstbjóðendum það sem þeir vilja, hvort sem það verði hreina vatnið okkar eða hvað sem er. Það er bara verið að fjárfesta í einhverju til að græða á,“ segir Jóna.

Kippur kom í undirskriftasöfnunina í dag og tengir Jóna það við fréttir af kaupum Ratcliff á eign­ar­halds­fé­laginu Grænaþingi af Jó­hann­esi Krist­ins­syni. Með kaup­unum á auðjöf­ur­inn 86,67 pró­senta hlut í veiðifé­lag­inu Streng ehf., sem er með Selá og Hofsá í Vopnafirði á leigu.

Alls hafa 3.451 skrifað undir. Jóna segir að ekki sé stefnt að því að ná ákveðnum fjölda en að á ákveðnum tímapunkti verði listinn afhentur ráðamönnum. „Tilgangurinn er að koma þessu til ráðamanna þannig að þeir virkilega taki eftir því að það er krafa fólks að ekki sé verið að selja landið úr landi og í einhverja svona misnotkun,“ segir Jóna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert