Rannsókn lokið og vitna leitað

Báðar hæðir hússins eru mikið skemmdar og eru upptök eldsins …
Báðar hæðir hússins eru mikið skemmdar og eru upptök eldsins óljós. mbl.is/​Hari

Rannsókn lögreglu á vettvangi brunans við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði á föstudagskvöld er lokið og hefur hann verið afhentur tryggingafélagi. Ekkert liggur fyrir um eldsupptök, en báðar hæðir hússins eru mjög illa farnar eftir brunann.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði muni halda rannsókn áfram í samvinnu við tæknideild embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan óskar eftir að ná tali af fólki sem var á ferðinni í nágrenni við brunavettvanginn, bæði á ökutækjum og gangandi áður en lögregla og slökkvilið mættu á staðinn. Ökutækin og fólkið sjást á myndefni sem lögreglu hefur borist og er mikilvægt að viðkomandi hafi samband við lögreglu sem fyrst.

mbl.is