Steinsteypa ekki nóg

Barn á leikskóla.
Barn á leikskóla. mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn telja mikilvægt að staðið verði við að fjölga leikskólarýmum enda stefnt að því að tryggja 12 mánaða börnum rými.

Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segir það hins vegar til lítils að fjölga leikskólarýmum ef leikskólarnir standa ómannaðir, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Þrátt fyrir fögur fyrirheit allt síðasta kjörtímabil voru biðlistar langir og börn gjarnan send heim vegna manneklu síðasta vetur. Auk þess er verulegur skortur á fagmenntuðu fólki í leikskólum borgarinnar. Það er því sá raunveruleiki sem þarf að hafa í huga við framkvæmdina. Eins mætti víkka sjóndeildarhringinn og leggja aukna áherslu á ráðningu starfsfólks með fjölbreyttan bakgrunn sem gæti reynst þroskandi fyrir börnin, t.d. með bakgrunn í tónlist, íþróttum eða listum,“ segir Eyþór í tilkynningunni.

Hann nefnir að fimm ára fjárhagsáætlun frá síðasta ári hafi verið verulega vanáætluð. „Ekki er hægt að láta hjá líða að nefna að foreldrar sumra barna á leikskólaaldri eru ekki að fá leikskólarými fyrir börn sín í þeim hverfum þar sem þau eru búsett. Það eitt og sér er áhyggjuefni hjá foreldrum barnanna enda getur slík staða haft áhrif á félagsleg tengsl barnanna í hverfinu. Það er ekki nóg að gera ráð fyrir steinsteypu til að brúa bilið. Það þarf að vinna markvisst að því að tryggja faglega mönnun sem of lengi hefur verið í ólestri,“ bætir hann við í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert