Sýknaður af nauðgunarákæru

Maðurinn var sýknaður af nauðgunarákæru.
Maðurinn var sýknaður af nauðgunarákæru. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur sýknað karlmann af ákæru um að hafa nauðgað konu á síðasta ári.

Héraðssaksóknari ákærði manninn 7. júní síðastliðinn fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði við konuna að loknu samkvæmi án hennar samþykkis með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Þess var krafist að maðurinn yrði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Konan krafðist þriggja milljóna króna í miskabætur ásamt vöxtum.

Ákæruvaldið byggði mál sitt á því að framburður konunnar hafi verið trúverðugur og að framburður annarra vitna sem lýstu ölvunarástandi hennar hafi stutt hann. Ákæruvaldið taldi að manninum hafi hlotið að vera ljóst að konan hafi ekki getað gefið samþykki fyrir kynmökum.

Af hálfu ákærða var byggt á því að ekki hafi tekist að sanna refsinæma háttsemi af hans hálfu. Hann hafnaði því að hafa haft samfarir við konuna án hennar samþykkis og að hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna ölvunar og svefndrunga. Að mati ákærða var framburður hans trúverðugur en framburður konunnar ótrúverðugur.

Fram kemur í dóminum að af framburði vitna sé ljóst að konan hafi verið undir miklum áhrifum áfengis. Nokkur blæbrigðamunur var samt á framburði vitna varðandi ölvunarástand hennar.

„Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki, gegn staðfastri neitun ákærða, tekist að sanna svo ekki leiki á skynsamlegur vafi að brotaþoli hafi verið ófær um að veita samþykki sitt fyrir kynmökunum, líkt og ákæruvaldið heldur fram. Ber því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu,“ segir í dóminum. Einkaréttarkröfu konunnar var vísað frá dómi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert