Geymd í læstri skjalatösku milli kosninga

Óvíða eru gerðabækurnar geymdar í skjalaskápum.
Óvíða eru gerðabækurnar geymdar í skjalaskápum. Af Wikipedia

Ekkert eitt fyrirkomulag virðist vera haft á varðandi geymslu og afritun gerðabóka kjörstjórna milli kosninga. Það sama á við um hverjir hafi heimild til að lesa þær, sem og hvort verklag sé til um yfirferð á frávikum sem skráð eru í gerðabók við kosningar.

Þetta kemur fram í svörum dómsmálaráðherra  við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar,  þingmanns Pírata, um gerðabækur kjörstjórnar, en svör bárust frá 27 af 72 kjörstjórnum sveitarfélaga og frá fjórum af sex kjörstjórnum kjördæma við alþingiskosningar.

Víða eru gerðabækurnar geymdar í skjalageymslum eða á skrifstofum sveitarfélaganna. Óvenjulegri geymslustaðir finnast þó. Þannig er kjörstjóri Strandabyggðar með gerðabókina í læstri skjalatösku milli kosninga og í Svalbarðshreppi og Hörgársveit  eru þær geymdar í atkvæðakassa hreppsins. Atkvæðakassinn er líka geymslustaður gerðabókar Blönduóshrepps, en tekið er þó fram að sá kassi er „geymdur inni í eldtraustri geymslu á skrifstofu Blönduósbæjar“. 

Misjafnt er einnig hvort einhverjir og þá hverjir hafi heimild til að lesa gerðabækurnar. Víða hefur engin afstaða verið tekin til málsins þar sem beiðni um aðgang hefur ekki komið upp, sums staðar er aðgangur að þeim heftur við undirbúning kosninga en opinn þess á milli og í öðrum tilfellum er afstaða tekin til slíkra beiðna er þær berast.

Í Strandabyggð hafa hins vegar allir sem þess hafa óskað fengið ljósritað afrit úr gerðabókinni og í Grýtubakkahreppi er því svarað til að hver sem er megi lesa bækurnar og eru engir sérstakir lestrartímar fráteknir til þessa. 

Sjaldnast eru til afrit af gerðabókunum, en í stöku tilfelli eins og hjá Reykjavíkurkjördæmunum eru þær ljósritaðar og skannað eintak vistað í skjalasafni Ráðhússins. Í Dalvíkurbyggð eru afrit af gerðabókum kjörstjórnar geymd á lokuðum vef Dalvíkurbyggðar, en í Fjallabyggð og Hveragerði eru stafræn afrit aðgengileg á vef sveitar- og bæjarfélaganna.  

Þeirri spurningu Björns Levís hvort verklag sé til um yfirferð á frávikum sem skráð eru í gerðabók við kosningar svara flest sveitarfélögin neitandi, sum segja spurninguna óljósa, en önnur segja frávikin ýmist yfirfarin af kjörstjórn líkt og í Þingeyjarsveit eða þá að þau er skráð í gerðabókina líkt og í Norðurþingi og Strandabyggð.

Þar er unnið „úr öllum frávikum á kjörstað. Slík frávik eru skráð sérstaklega í gerðabókina ásamt viðbrögðum með tilvísun í viðeigandi lög. Við undirbúning kosninga eru rifjuð upp frávik og meðhöndlun þeirra.“ 

Sama virðist uppi á teningnum í Vestmannaeyjum, en fyrir kosningar þar „er almennt brýnt fyrir þeim er skrá niður í bækurnar að skrá í bækurnar allt það sem máli skiptir við framkvæmd kosninganna. Meðan á kosningum stendur og eftir að þeim lýkur er farið yfir framkvæmd kosninganna og metið hvort einhver frávik eða atvik hafi komið upp sem skipt geta máli um úrslit kosninganna.“

Enn önnur sveitarfélög vísa í kosningalög, eða eins og í tilfelli Skagabyggðar farið eftir kosningahandbók gefinni út af dómsmálaráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert