Mikið að gera á afgreiðslstöðum Spalar

Afgreiðslustöðum Spalar verður lokað um mánaðamótin og eru þeir sem …
Afgreiðslustöðum Spalar verður lokað um mánaðamótin og eru þeir sem enn hafa ekki skilað veglykli eða afsláttarmiðum hvattir til að gera það fyrir þann tíma. mbl.is/Árni Sæberg

Verulegur stígandi hefur verið í fjölda veglykla og ónotaðra miða í Hvalfjarðargöngin sem búið er að skila, en afgreiðslustöðum Spalar verður lokað um næstu mánaðamót. „Það er búið að vera þó nokkuð margt fólk að koma og skila bæði á skrifstofuna og eins er búið að vera mikið að gera á afgreiðslustöðum í Reykjavík,“ segir Anna Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Spalar ehf.

Búið er að greiða viðskiptavinum félagsins liðlega helming þeirra fjármuna sem þeir áttu á áskriftarreikningum sínum (andvirði ónotaðra ferða á veglykli) þegar ríkið tók við rekstri Hvalfjarðarganga 1. október sl. eða um 120 milljónir króna af alls 231 milljón króna, sem var staðan í lok september. Afsláttarmiðar hafa skilað sér hlutfallslega verr en veglyklar, og voru 111.000 ónotaðir miðar útistandandi í lok september, að verðmæti um 71 milljón króna. Búið er að greiða út á átjándu milljón króna fyrir liðlega 27.000 miða.

Enn á þó eftir að endurgreiða fyrir fjölda veglykla og afsláttarmiða sem skilað hefur verið inn undanfarið og endurgreiðslutalan því hærri, en nokkurn tíma tekur að vinna úr því sem safnast hefur fyrir á skrifstofu Spalar.

Anna segir ómögulegt að giska á hversu margir eru búnir að skila veglyklum og afsláttarmiðum. Það sé þó töluverður fjöldi, en 52.000 veglyklar voru úti í lok september.

Hún segir þó útlit fyrir að ekki verði allir búnir að skila þegar afgreiðslustöðvum Spalar verður lokað 31. nóvember nk. Skrifstofa félagsins verður þó opin áfram um tíma. „ Það þarf að klára þetta allt saman,“ segir hún, en til stendur að slíta félaginu á næsta ári.

Í afhendingarsamningi ríkisins og Spalar er kveðið á um að verði einhverjir fjármunir eftir í fórum Spalar, þegar allur kostnaður hefur verið greiddur og hlutafé sömuleiðis, skuli þeir renna til „sérstakra verkefna í tengslum við rekstur Hvalfjarðarganga“.  

Í desember er stefnt að því að ljúka uppgjöri við þá sem skiluðu lyklum og miðum fyrir lok nóvember. Jafnframt því mun starfsfólk Spalar reyna að ná sambandi við þá sem ekki létu í sér heyra fyrir 1. desember, en sem eiga inni á áskriftarreikningum hjá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert