Úrvinnslu samræmdra prófa lokið

Úrvinnslu samræmdra könnunarprófa er lokið.
Úrvinnslu samræmdra könnunarprófa er lokið. mbl.is/​Hari

Menntamálastofnun hefur lokið úrvinnslu samræmdra könnunarprófa sem lögð voru fyrir í haust. Niðurstöðurnar eru þær að yfir landið allt fengu nemendur í fjórða bekk að meðaltali 6,1 í einkunn í íslensku og 6,8 í einkunn í stærðfræði. Í sjöunda bekk fengu nemendur að meðaltali 6,4 í einkunn og 5,9 í stærðfræði.

Hæsta meðaleinkunnin íslensku og stærðfræði í 4. bekk var í Reykjavík en í Suðurkjördæmi og í Norðvesturkjördæmi var hún lægst.

Nemendur í Reykjavík voru einnig með hæstu meðaleinkunnina í íslensku og stærðfræði í sjöunda bekk á meðan lægsta meðaleinkunnin í íslensku var í Suðurkjördæmi og í stærðfræði var hún lægst í Suður- og Norðausturkjördæmi.

Samtals þreyttu um 8.730 nemendur haustpróf að þessu sinni; 4.549 nemendur í 4. bekk og 4.181 nemandi í 7. bekk. Í viðhorfskönnun sem lögð var fyrir skólastjórnendur í kjölfar prófanna töldu 90% skólastjóra að fyrirlögnin hefði heppnast vel og svipað hlutfall skólastjóra segir að þeir muni nota niðurstöður prófanna beint í þágu skólastarfsins. Menntamálastofnun þakkar skólastjórnendum, kennurum og nemendum kærlega fyrir samstarfið.

Heildarniðurstöður og greiningar fyrir skóla, sveitarfélög, landshluta og kjördæmi eru nú aðgengilegar í skýrslugrunni Menntamálastofnunar.

Stofnunin hvetur til varfærni við túlkun á niðurstöðunum, þar sem ólík stefna skólanna og aðstæður geta haft áhrif á heildarniðurstöður hvers skóla. Þannig gerir stærð skóla, þátttökuhlutfall, félagslegur bakgrunnur nemenda, námsforsendur, sértækir námserfiðleikar o.fl. beinan samanburð milli skóla erfiðan og jafnvel óæskilegan, að því er segir í tilkynningu.

Samræmd könnunarpróf eru einn liður af mörgum sem notaðir eru við námsmat í skólum. Þau eru frábrugðin öðru námsmati að því leyti að allir nemendur á landinu þreyta sama prófið og niðurstöður gefa því annað sjónarhorn á stöðu nemenda. Með niðurstöðunum fá nemendur upplýsingar um sína námsstöðu og skólar upplýsingar til að skipuleggja kennslu. Menntamálastofnun mun nota niðurstöðurnar til að stuðla að umbótum og þróun í skólastarfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert