Fíknimálin á jaðri jaðarsins

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Hari

Geðheilbrigðismál eru ein helsta áskorun sem Ísland stendur frammi fyrir líkt og flest ríki heims. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjallaði um þessar áskoranir á fundi Öryrkjabandalagsins í vikunni og mikilvægi samvinnu kerfanna. „Það er ekki  bara á Íslandi heldur um allan heim, sem betur fer, sem áherslan er að færast yfir á það að við getum ekki talað um heilbrigðismál öðruvísi en að tala um geðheilbrigði.

Geðheilbrigðismál hafa verið og eru jaðarsett í heilbrigðisumræðunni og -þjónustunni og innan geðheilbrigðisþjónustunnar hafa fíknimálin verið jaðarsett, segir hún. „Það má segja að fíknimálin séu á jaðri jaðarsins og það er okkar verkefni að færa og flytja þessa umræðu nær miðjunni. Nær því að hún sé alltaf partur af því sem er á dagskrá,“ segir Svandís. 

Geðheilbrigði er ein af grundvallarforsendum heilbrigðis, segir Svandís. Við vitum sífellt betur um hin órjúfanlegu tengsl andlegrar og líkamlegrar heilsu,“ segir hún og bætir við að svo hafi ekki verið fyrir nokkrum árum.  

Kynslóð ungs fólks er að vaxa úr grasi sem leitar frekar á náðir snjalltækja þegar kemur að persónulegri þjónustu strax í stað þess að bíða í allt að átján mánuði eftir meðferð hjá sérfræðingum í geðheilbrigðiskerfinu, segir í nýrri rannsókn um geðheilbrigði barna og ungmenna í Bretlandi sem fjallað er um í breskum fjölmiðlum í dag.

Einn stærsti vandinn

Geðheilbrigðisvandi er einn stærsti vandinn sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að eftir tvö ár muni geðheilbrigðisvandamál vera 15% alls heilbrigðisvanda í heiminum. Einn af hverjum fjórum einstaklingum glímir við geðheilbrigðisvanda einhvern tíma á ævinni. Geðræn vandamál koma jafnan snemma á ævinni í ljós og helmingur geðraskana kemur fram á táningsárum og 75% geðraskana eru komnar fram fyrir þrítugt, sagði Svandís á fundi ÖBÍ um geðheilbrigðismál Er gætt að geðheilbrigði?

Um er að ræða gríðarlega stóran þátt í útgjöldum heilbrigðisþjónustunnar og alls efnahags þjóða og fer vaxandi, segir Svandís. Hún segir að við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum og mikilvægt sé að beina sjónum enn frekar að forvörnum en verið hefur.

Gríðarlegar framfarir hafi átt sér stað á síðustu áratugum þar sem áhersla er lögð á þjónustuþegann og valdeflingu notandans. Aukin áhersla er lögð á notendamiðaða þjónustu í nærumhverfi og að draga úr stofnanavæðingu. Eins sé mikilvægt að leggja aukna áherslu á rétt fólks til geðheilbrigðisþjónustu enda hafi það sýnt sig að skilar árangri segir heilbrigðisráðherra.

„Þeir sem glíma við geðheilbrigðisvanda eiga sama rétt, sams konar kröfu, á að njóta þjónustu sem byggir á gagnreyndri þekkingu,“ segir Svandís.

Samvinna kerfanna allra

Svandís segir samvinnu mikilvægan þátt í geðheilbrigðisþjónustu. „Þá er ég ekki að tala um samvinnu einstakra stofnana innbyrðis heldur er ég að tala um samvinnu kerfanna allra. Það er að segja að við segjum ekki að geðheilbrigðismál, eða heilbrigðismál, varði bara heilbrigðisþjónustuna og heilbrigðiskerfið. Heldur viljum við segja miklu frekar að geðheilbrigði þjóða snúist líka um menntakerfið. Snúist líka um öfluga félagsþjónustu, dómstólana, atvinnulífið, menningarlífið. Það snúist líka um samgöngu- og skipulagsmál. Allir þurfa að vinna saman, allt samfélagið,“ segir hún.

Svandís segir að hún hafi nýverið setið fund ásamt fulltrúum sextíu þjóðríkja þar sem geðheilbrigðismál voru umræðuefnið. Þar var mikil áhersla lögð á að leiðtogar ríkja heims tækju höndum saman að sjá til þess að geðheilbrigðismál og aðgerðir í þeim málaflokki séu settar þar sem málaflokkurinn fái það vægi sem honum ber. Allar þjóðir heims voru í þeirri stöðu að geta gert betur í geðheilbrigðismálum, segir hún. Þjóðir séu misvel á vegi staddar en allar geti betur. Hvort sem það er með auknu fjármagni eða að færa geðheilbrigðismálin nær miðjunni í heilbrigðisþjónustunni. 

Ungmenni vilja þjónustu strax, ekki eftir átján mánuði.
Ungmenni vilja þjónustu strax, ekki eftir átján mánuði. AFP

Leita eftir aðstoð í snjalltækjunum

Tugir þúsunda breskra ungmenna glíma við geðræn vandamál og leita aðstoðar á netinu við vandamálum eins og kvíða, sjálfskaða og þunglyndi. Í nýlegri fram­halds­skóla­könn­un sem Rann­sókn og grein­ing vann fyr­ir embætti land­lækn­is kom fram að mörg ung­menni hér á landi glíma við kvíða, þung­lyndi og sjálfs­vígs­hugs­an­ir.

Í grein á vef Guardian kemur fram að fjöldi ungmenna yngri en átján ára sem leitar á náðir snjallforrita, ráðgjafa á netinu og heldur dagbók um líðan sína fari ört vaxandi. Þetta sé gert í þeim tilgangi að aðstoða þau við að halda betur utan um líðan sína og ná þeim út úr aðstæðum sem valda því að þau eru með líður illa, einangruð og í sumum tilvikum í sjálfsvígshættu.

Ein af hverjum fjórum

Nýjar tölur frá bresku heilbrigðisþjónustunni (NHS) sýna að ein af hverjum fjórum ungum konum glímir við geðræn veikindi, tilfinningavanda eins og depurð og kvíða. Ungar konur á aldrinum 17 til 19 ára eru tvöfalt líklegri til þess að glíma við geðheilbrigðisvanda heldur en ungir karlmenn. 23,9% ungra kvenna segist glíma við raskanir á þessu sviði. Börn á aldrinum fimm til 15 ára eru líklegri en áður til þess að glíma við geðraskanir eða eitt af hverjum níu börnum sem er aukning úr 10% fyrir 13 árum þegar síðasta sambærilega könnun var birt.

Þrátt fyrir loforð breikkar bilið

Á sama tíma var 37% barna og ungmenna sem leituðu á náðir opinbera kerfisins í geðheilbrigðismálum (Camhs) synjað um hjálp, að sögn umboðsmanns barna á Englandi, Anne Longfield. Hún segir að þrátt fyrir loforð stjórnmálamanna og yfirmanna NHS um að bæta aðgengið breikki alltaf bilið á milli þeirrar þjónustu sem er í boði og þarfar barna sem þurfa á þjónustunni að halda. 

Longfield segir að í ákveðnum atriðum hafi aðgengið batnað og vísar þar til átröskunarteyma, ungra mæðra og ungmenna yngri en 18 ára sem hafa brotið af sér með saknæmum hætti. En mikið vanti upp á að meginþorri barna sem þurfi á stuðningi að halda fái hann. 

Af þeim 338 þúsund börnum og ungmennum sem leituðu til Camhs á síðasta ári fengu 31% aðstoð innan árs, 37% fengu enga aðstoð og 32% voru enn að  bíða eftir að hafa verið á biðlista í eitt ár eða lengur í lok árs 2017.

Sjálfsvígshugsanir eru eitt af því sem ungmenni nefna.
Sjálfsvígshugsanir eru eitt af því sem ungmenni nefna. AFP

Rændi mig táningsárunum

Eitt þeirra ungmenna sem BBC ræddi við er Emma Blezard en hún er átján ára gömul. Hún segir að geðræn vandamál hafi rænt hana táningsárunum en hún fór að finna fyrir vanlíðan þegar hún var 13 ára gömul. Bæði kvíða og felmtursköstum áður en átröskun tók við. Það var ekki fyrr en ári síðar sem hún ræddi þetta við foreldra sína og endaði á sjúkrahúsi vegna sjálfsvígshættu. 

„Ég misst svo mikið úr mínu lífi vegna þessara veikinda. Ég hef misst vini, af afmælum og sumarleyfum. Ég vildi óska þess að þetta væri yfirstaðið.“

Þrátt fyrir að hafa fengið meðferð nægði það ekki og hún einangraðist. Hún hafi eytt löngum stundum hjá hjúkrunarfræðingi skólans í stað þess að sækja tíma og farið um landið þvert og endilangt í leit að aðstoð. Vandinn sé enn til staðar og hún óttist að hann sé  kominn til að vera.

Líðan sveiflast í takt við „like“

Eitt af því sem nefnt er þegar geðrænan vanda ungmenna ber á góma eru samfélagsmiðlar. Í umfjöllun BBC um geðheilbrigðismál ungs fólks kemur fram að þeir skipti máli. Samkvæmt rannsókninni eru börn á aldrinum 11-19 ára sem glíma við geðrænan vanda líklegri til að eyða meiri tíma en önnur börn á samfélagsmiðlum. Tæpur þriðjungur þeirra eyðir yfir fjórum klukkustundum á dag á samfélagsmiðlum. Þetta er mun minni tími en börn með góða geðheilsu eyða á slíkum miðlum. 

Þau sem eiga við geðvanda að stríða eru líka líklegri til þess að láta „like“ hafa áhrif á sig og líðan þeirra sveiflast meira með slíkum atriðum. Þau eru líka líklegri til þess að bera sig sífellt saman við aðra í sýndarheiminum.

Einelti á netinu er vaxandi vandamál samkvæmt rannsókninni en tilfinningavandinn er sá vandi sem er að vaxa hvað hraðast. 

Hægt er að lesa nánar um þetta á vef Guardian og BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert