Gild rök fyrir fækkun lífeyrissjóða

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/​Hari

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur að gild rök geti verið fyrir því að lífeyrissjóðir verði sameinaðir. Slíkt hafi verið að gerast á undanförnum árum. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Guðjóns Brjánssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í sérstakri umræðu á Alþingi um stöðu, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Úr 50 lífeyrissjóðum í 21

Í máli Guðjóns kom fram að 21 lífeyrissjóður starfi hér á landi og að greiðandi sjóðsfélagar hafi um síðustu áramót verið 265 þúsund talsins. Árið 1997 voru sjóðirnir 50 og hefur þeim því fækkað. Spurði hann ráðherra hvort hann teldi ástæðu til að þeim fækki enn frekar og hvort starfsemi þeirra og þjónusta verði þar með samræmd og gerð hagkvæmari.

„Við erum með mjög sterkt lífeyriskerfi og það er einn af helstu styrkleikum okkar í efnahagslegu tilliti hversu langt við höfum hugsað í því efni,“ sagði Bjarni og bætti við að Ísland standi mörgum erlendum þjóðum framar hvað þetta varðar.

Ekki leiðandi fjárfestar í öllum fyrirtækjum

Hann nefndi að greina þurfi betur „langt inn í framtíðina“ hvernig greiðsluflæði lífeyrissjóða verður. Slíkt geti haft áhrif á mikilvægar efnahagsstærðir. Á síðasta ári lét Bjarni gera skýrslu um stöðu lífeyrissjóða á mörkuðum, meðal annars með tilliti til þess hvort þeir væru orðnir of fyrirferðarmiklir. „Lífeyrissjóðir eiga ekki að vera leiðandi fjárfestar í öllum fyrirtækjum á Íslandi, þeir eiga að vera meðfjárfestar,“ sagði hann. „Við þurfum koma almenningi meira í þá stöðu að nýju að vera hluthafar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina